Flýttu útskrift vegna leiksins

Jorge Sampaoli, þjálfari Argentínu, og Heimir Hallgrímsson.
Jorge Sampaoli, þjálfari Argentínu, og Heimir Hallgrímsson. AFP

„Vanalega hefði útskriftin verið klukkan eitt en við ákváðum að færa hana þegar ljóst varð að leikurinn yrði á þessum tíma. Þá fengum við holskeflu af fyrirspurnum frá nemendum sem voru uggandi yfir því að þeir yrðu að vera í útskrift á sama tíma,“ segir Katrín Rut Bessadóttir, verkefnastjóri á markaðs- og samskiptasviði Háskólans í Reykjavík.

Útskrift skólans verður klukkan tíu á laugardagsmorgun og verður henni lokið um hádegisbil, klukkutíma fyrir leik Íslands og Argentínu á HM í Rússlandi. Útlit er fyrir að þjóðfélagið leggist á hliðina á meðan á leiknum stendur og fátt verði annað við að vera.

„Við höfum heyrt af einhverjum sem ætla að slá saman útskriftarveislu og því að horfa á leikinn en svo verða einhverjir með veislu eftir leikinn,“ segir Katrín, en um 600 manns útskrifast frá HR að þessu sinni. Hún segir að útlit sé fyrir góða mætingu á athöfnina, sem verður í Hörpu. „Það mæta langflestir og nánast allir þeir sem ekki komast verða staddir í Rússlandi.“

Háskólinn á Bifröst mun útskrifa um 80 nemendur á laugardag. Athöfnin verður sömuleiðis klukkan tíu að morgni. Að athöfn lokinni verður boðið upp á móttöku og hægt verður að horfa á leikinn í aðstöðu nemendafélagsins.

„Fólk skipuleggur allt í kringum þetta. Það voru skírnarathafnir færðar til að þær myndu ekki rekast á leikinn,“ segir Ólafur Jóhann Borgþórsson, sóknarprestur í Seljakirkju. Hann gefur tvö pör saman á laugardaginn en svo heppilega vill til að brúðkaupin eru síðdegis. „Ég er með brúðkaup klukkan þrjú og svo aftur klukkan hálf fimm. Bæði pörin voru fegin því að leikurinn var svo snemma dags og nú vona þau bara að hann fari vel svo að gestir verði í góðu skapi þegar þeir koma.“

Undirbúningur prestsins tekur sömuleiðis mið af leiknum mikilvæga. „Já, ætli ég verði ekki með tvær ræður tilbúnar. Eina ef við vinnum og aðra ef við töpum.“

Annars kveðst Ólafur öllu orðinn vanur þegar kemur að fótbolta. „Já, og það þarf ekki svona stóra leiki til. Menn eru gjarnan að stelast til að fylgjast með leikjum í enska boltanum í símanum í kirkjunni. Það er bara gaman að þessu.“

Götuspyrnan ekki færð til

„Rússarnir voru greinilega ekki búnir að átta sig á því að við vorum búnir að gefa út keppnisdagatalið okkar þegar þeir skipulögðu mótið. Það var alveg vitað að götuspyrnan yrði á þessum tíma. Þetta er náttúrlega skandall,“ segir Einar Gunnlaugsson, stjórnarformaður Bílaklúbbs Akureyrar, sem stendur fyrir Bíladögum um helgina.

Götuspyrnan stendur frá 11-15 og ætti því hápunktur hennar að vera á sama tíma og leikurinn við Argentínu. Einar býst þrátt fyrir þetta við góðri mætingu á Bíladaga og segir að þeir sem vilji geti horft á leikinn.

„Við reddum því auðvitað og verðum með leikinn í beinni í sjónvarpinu í félagsheimilinu okkar. Svo erum við með kynni sem hefur ekkert rosalega mikið á móti fótbolta og hann mun eflaust segja frá gangi mála í leiknum og úrslitunum.“

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert