„Það var eins og húsið lyftist“

Frá Siglufirði.
Frá Siglufirði. mbl.is/Sigurður Bogi

Jarðskjálfti varð um tíu kílómetrum norðvestur af Siglufirði rétt í þessu. Samkvæmt tölum Veðurstofu Íslands var stærð hans 3,5.

Sigurður Ægisson, fréttaritari Morgunblaðsins á Siglufirði, fann skjálftann vel í bænum. 

„Við vorum að horfa á sjónvarpið og það var eins og húsið lyftist. Þetta var mjög sérstakt," segir hann og kveðst síðast muna eftir álíka skjálfta árið 2002 eða 2003. 

„Þetta gerðist mjög snöggt. Þetta voru ekki nema örfáar sekúndur."

Hann bætir við að glamur í glösum hafi heyrst frá eldhúsinu. 

Fram kemur á vef Veðurstofunnar að tilkynningar hafi borist um að skjálftinn hafi fundist víða á Tröllaskaga og í Skagafirði.

Engir skjálftar hafa fylgt í kjölfarið en skjálftinn mældist klukkan 23.03. 

„Það þekkjast skjálftar af þessari stærðargráðu á þessu svæði. Þetta er að gerast alltaf af og til,“ segir Kristín Elsa Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, um skjálftann.

Hún var ekki með tölur um hvenær álíka stór skjálfti mældist síðast á svæðinu en hélt að það hafi orðið fyrir einhverjum mánuðum síðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert