Hjá Höllu með hagstæðasta tilboðið

Hjá Höllu var með hagstæðasta tilboðið í útboðinu.
Hjá Höllu var með hagstæðasta tilboðið í útboðinu. Ljósmynd/Aðsend

Veitingastaðurinn Hjá Höllu í Grindavík var með hagstæðasta tilboðið í útboði fyrir útleigu á aðstöðu undir veitingaþjónustu á annarri hæð í suðurbyggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli.

Útboðið hófst í mars, en skömmu áður var haldinn vel sóttur fundur þar sem framkvæmd útboðsins var kynnt, að því segir í tilkynningu frá Isavia.

Óskað var eftir áhugasömum aðilum með reynslu af veitingarekstri til þátttöku í valferlinu. Byggt var á markaðsrannsóknum meðal tengifarþega sem sýndu að þeir kjósi þekkta matvöru sem sé tilbúin á skömmum tíma, þá helst pítsur og fersk salöt.

Tólf fyrirtæki sóttu útboðsgögn eftir að opnað var fyrir aðgang að þeim 28. mars. Fjögur þeirra sendu inn upplýsingar um hæfi, þrjú tilboð uppfylltu hæfiskröfur og var þeim sem stóðu að tilboðunum þremur boðið til viðræðna.

Staðsetning veitingastaðarins.
Staðsetning veitingastaðarins. Kort/Aðsent

Í valferlinu var notast við samkeppnisviðræður og að lokum samið við þann aðila sem skilaði inn hagstæðasta tilboðinu. Matsnefnd fór yfir tilboðin og var hún skipuð tveimur fulltrúum frá Isavia og tveimur utanaðkomandi aðilum frá Deloitte.

Gerður verður fjögurra ára samningur við Hjá Höllu um útleigu á aðstöðunni og rekstur veitingaþjónustu í suðurbyggingu flugstöðvarinnar. Mun staðurinn bjóða upp á pítsur, salöt og einn heitan rétt að auki. Stefnt er að því að staðurinn verði opnaður síðar í sumar, samkvæmt tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert