Tveir í haldi vegna líkamsárásar

mbl.is/Kristinn Freyr Jörundsson

Lögreglan á Akureyri handtók tvo karlmenn á þrítugsaldri sem eru grunaðir um að hafa ráðist á mann í Hafnarstræti í nótt. Maðurinn sem varð fyrir árásinni var fluttur á slysadeild en talið er að hann hafi fótbrotnað.

Árásarmennirnir verða yfirheyrðir í dag og er málið í rannsókn að sögn lögreglu. Ekki liggur fyrir hvað mönnunum gekk til.

Lögreglan stöðvaði fjóra ökumenn fyrir að aka of hratt innanbæjar. Sá sem ók hraðast mældist á 87 km hraða þar sem hámarkshraði er 50 km á klst. 

Þá komu upp fjögur fíkniefnamál í nótt. Um minniháttar mál er að ræða að sögn lögreglu, en í öllum tilvikum lagði lögregla hald á vörsluskammta. 

Alls gistu fjórir fangageymslur eftir nóttina. Tveir í tengslum við ofangreinda líkamsárás, einn sökum vímuástands og sjá fjórði óskaði eftir gistingu þar sem hann átti í engin hús að venda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert