Sólríkt í höfuðborginni á morgun

mbl.is/Styrmir Kári

Heiðskírt verður á höfuðborgarsvæðinu mestan hluta morgundagsins og von er á fjölmörgum sólskinsstundum. „Ef þetta gengur allt eftir eins og við erum að vona þá léttir til seinni part nætur og verður orðið heiðskírt þegar fólk fer til vinnu [á morgun]. Það verður ágætlega bjart yfir á morgun, en svo er ballið búið,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Sól skein í níu tíma í höfuðborginni í gær, af þeim 21 sem sól er á lofti um þessar mundir og segir Óli von á enn fleiri tímum á morgun. Óli segir sjóinn þó kaldan og að hitinn verði að öllum líkindum um 12 gráður í Reykjavík. Hann geti þó farið upp í 14-15 gráður í uppsveitum sunnanlands.

Margir eru sjálfsagt með hugann við næsta leik íslenska landsliðsins á föstudag. Leikurinn verður sýndur á fjölmörgum risaskjám um allan bæ og því ekki óeðlilegt að einhverjir hafi áhuga á föstudagsveðrinu.

Yfirgnæfandi líkur eru á einhverri vætu um landið vestanvert, en úrkoman minnkar eftir því sem líður á daginn. Þó er viðbúið að skýjað verði.

Norðausturland ætti að sleppa betur og á Egilsstöðum er spáð 19 gráðum og hægum vindi þegar flautað verður til leiks í Volgograd klukkan þrjú að íslenskum tíma.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert