Auglýsa eftir tjöldum til að svara eftirspurn heimilislausra

Svala Jóhannesdóttir verkefnisstýra Frú Ragnheiðar – skaðaminnkandi verkefni fyrir fíkla …
Svala Jóhannesdóttir verkefnisstýra Frú Ragnheiðar – skaðaminnkandi verkefni fyrir fíkla og fólk á götunni. mbl.is/Hari

Frú Ragnheiður — Skaðaminnkun, sem er verkefni á vegum Rauða Krossins Í Reykjavík, auglýsir eftir tjöldum fyrir heimilislausa skjólstæðinga sína. Alls hefur heimilislausum í Reykjavík fjölgað um 95% á síðustu fimm árum og voru um það bil 350 manns skráðir heimilislausir aðeins í Reykjavík í fyrra. Flestir voru á aldrinum 21-30 ára eða um 26% og mikill meirihluti voru karlar eða um 68% samkvæmt kortlagningu Reykjavíkurborgar.

Svala Jóhannesdóttir, verkefnastýra Frú Ragnheiðar, segir að þetta sé í fyrsta sinn sem verkefninu berast beiðnir um tjöld. Ástæðan sé sú að heimilislausir kjósi margir að nýta sér sumarið og búa úti í tjöldum á meðan veður er milt. Hluti þessa hóps eyddi síðasta vetri í bílakjöllurum, í athvörfum eða á vergangi.

Frú Ragnheiður hefur nú í eitt og hálft ár útdeilt …
Frú Ragnheiður hefur nú í eitt og hálft ár útdeilt teppum og tjalddýnum til heimillislausra. mbl.is/Valgarður Gíslason

Frú Ragnheiður hefur í eitt og hálft ár útdeilt svefnpokum, tjalddýnum og hlýjum fötum til skjólstæðinga sinna sem eru í hústökum, hjólageymslum og bílakjöllurum. Nú gerir Svala ráð fyrir að allavega 25 tjalda er þurfi í sumar til að svara eftirspurn, en eins og staðan er núna hafa fimm tjöldum verið úthlutað. Svala segir aukningu á meðal heimilislausra í Reykjavík gríðarlegt áhyggjuefni. „Heimilisleysi er það versta sem samfélagið gerir fólki. Allt öryggi hverfur og öll neikvæð einkenni aukast til muna.“

Frú Ragnheiður er sérinnréttaður bíll sem er ekið um götur höfuðborgarsvæðisins á kvöldin og mælir sér mót við einstaklinga sem fá heilbrigðisaðstoð á borð við aðhlynningu sára, umbúðaskipti, sýklalyfjameðferð, saumatöku og almenna ráðgjöf. Þar að auki bíður Frú Ragnheiður upp á nálaskiptaþjónustu fyrir einstaklinga sem nota vímuefni í æð. Viðkomandi getur þá fengið hreinar nálar, sprautur, nálabox, smokka og skaðaminnkandi ráðgjöf um öruggari leiðir í sprautunotkun og fræðslu um smitleiðir. Að auki fargar verkefnið notuðum sprautubúnaði. 

Þeir sem geta séð af sér nothæfum tjöldum fyrir Frú Ragnheiði eru hvattir til að hringja í síma 7887123.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert