Elti landsliðið á mótorhjóli

Kristján Gíslason.
Kristján Gíslason. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta ferðalag hefur gefið mér rosalega mikið“ segir Kristján Gíslason um ferðalag sitt um Rússland þar sem hann ferðaðist um á mótorhjóli.

Kristján er nú á leiðinni til Minsk í Hvíta-Rússlandi á leið sinni heim til Íslands eftir að hafa fylgt íslenska landsliðinu eftir í Rússlandi þar sem liðið tók þátt í heimsmeistaramótinu í knattspyrnu.

Kristján ferðaðist á mótorhjóli sínu frá Íslandi til Rússland þar sem hann sá alla þrjá leiki íslenska liðsins á mótinu. Hann hefur hjólað samtals hátt í níuþúsund kílómetra á þessu ferðalagi sínu, þar af rúmlega þrjúþúsund kílómetra í Rússlandi.

Hann segir ferðalagið hafa verið magnaða upplifun og mikill munur sé á því að ferðast um á mótorhjóli í stað þess að koma sér milli staða með lestum eða flugvélum.

 Þetta snýst ekki bara um að koma mér á milli staða heldur er það ferðalagið sjálft sem hefur gefið mér svo mikið. Að ferðast hér á milli þessara borga, stoppa og kynnast fólki, sjá og skynja hlutina hérna hefur gefið mér alveg nýja sýn á Rússland, segir hann. 

Aldrei verið áhugamaður um knattspyrnu

Þrátt fyrir að hafa lagt allt þetta ferðalag á sig þá hefur Kristján aldrei verið áhugamaður um knattspyrnu. Hann hefur gegnum tíðina forðast að lenda í umræðum um íþróttina en viðurkennir fúslega að stemningin í kring um þátttöku Íslands á heimsmeistaramótinu hafi breytt sýn hans.

Ég er farinn að skilja þetta allt miklu betur. Alla stemninguna og alla gleðina. Hér eru allir glaðir. Ég veit núna hvað fólk á við þegar það talar um stemningu, segir Kristján um fótboltafárið í Rússlandi.

Þurfti að standa við stóru orðin

Þegar íslenska liðið var komið langt með að tryggja sér sæti í lokakeppni heimsmeistaramótsins gaf Kristján það út að hann myndi fara til Moskvu á mótorhjólinu ef Ísland færi alla leið. Hann stóð við stóru orðin þrátt fyrir að hafa skipulagt aðra reisu á sama tímabili.

Ég viðhafði þau stóru orð og sagði að ég myndi fara til Moskvu á mótorhjólinu ef við kæmumst þangað. Það varð reyndin. Ég og Ásdís konan mín vorum búin að plana ferðalag um Bandaríkin í langan tíma. Ætluðum að vera í þrjá mánuði að fara yfir Bandaríkin en þurftum að stytta þá ferð, segir Kristján um tildrög ferðalagsins um Rússland.

Not every day you are greeted by a world famous figure.

A post shared by Kristján Gíslason (@slidingthrough) on Jun 29, 2018 at 5:53am PDT

Ferðalagið hófst þegar Kristján lagði af stað frá heimili sínu í Reykjavík austur á Seyðisfjörð þar sem hann fór um borð í Norrænu og sigldi með henni til Færeyja og síðan til Hirtshals í Danmörku. Eftir viðkomu í áttræðis afmæli hjá vini sínum hélt Kristján af stað til Þýskalands og komst að lokum til Póllands þar sem Ásdís kona hans beið eftir honum.

Hjónin eyddu næstu dögum í að ferðast um Eystrasaltsríkin þar sem þau gistu í höfuðborgum landanna og létu fara vel um sig áður en stefnan var sett á Moskvu.

Stoppuð af landamæravörðum

Seinasti viðkomustaður þeirra áður en þau héldu til Rússlands var Tallinn í Eistlandi. Þaðan hjóluðu þau 211 kílómetra til Narvo sem liggur á landamærum Eistlands og Rússlands. Þegar þangað var komið lentu þau í því leiðinlega atviki að þeim var meinuð aðganga inn í Rússland með mótorhjólið vegna þess að skráningarskírteini þess var á íslensku.

Okkur var bara vísað frá landamærunum og við komumst ekkert, segir Kristján óánægður með þá aðstöðu sem hann og Ásdís kona hans voru komin í.

Kristján sem hefur ferðast hringinn í kringum hnöttinn á mótorhjólinu hefur áður lent í óvissu vegna íslenska skráningarskírteinisins og sparar ekki stóru orðin þegar hann segir blaðamanni frá vanköntum þess.

Ég er búinn að tala við Þórólf Árnason, forstjóra Samgöngustofu, og segja við hann að það er ekki hægt að bjóða Íslendingum sem eru að ferðast á íslenskum faratækjum erlendis að vera með íslenskt skráningarskírteini. Það er svo væmnitítlulegt að það er ekki nema eitt A4 blað sem nánast hver gæti falsað, segir hann.

I’m definitely in Volgograd.

A post shared by Kristján Gíslason (@slidingthrough) on Jun 21, 2018 at 8:21am PDT

Kristján heldur áfram og segir fyrirkomulagið algjört klúður. Þetta er A4 blað. Á því stendur stórum stöfum Samgöngustofa. Eins og það sé eitthvað atriði, bætir hann við.

Þegar þeim var vísað frá landamærunum voru einungis þrír dagar í leik Íslands á móti Argentínu og um það bil 1.100 kílómetrar til Mosvku. Þau sneru því við og komu sér fyrir á hóteli stutt frá landamærunum. Þar lögðust þau yfir næstu skref. Þau ákváðu að daginn eftir myndu þau leggja af stað til Tallinn þar sem Ásdís myndi ná flugi til Moskvu.

Hún myndi þá allavega ná leiknum þó að ég næði honum ekki, segir Kristján sem var þó spældur yfir því að missa mögulega af leiknum eftir allt sem hann hafði lagt á sig til að vera viðstaddur þessa sögulega stund í íslenskri íþróttasögu.

Falsaði nýtt skráningarskírteini

Kristján dó ekki ráðalaus því kvöldið áður en hjónin fóru aftur til Tallinn hafði hann samband við vin sinn á Íslandi sem er grafískur hönnuður. Ég sagði honum að nú þyrftum við að redda einu stykki af skráningarskírteini og það á ensku, segir Kristján sem var ætlaði alls ekki að láta embættiskerfið hafa betur.

Vinur Kristjáns hófst þegar handa við að skoða á netinu alls konar skráningarskírteini erlendra ökutækja og sendi Kristjáni. Vinirnir voru sammála um að Filipseyska skírteinið liti best út og notuðu það sem fyrirmynd. Hins vegar þótti þeim bakhliðin vera dálítið tómleg. Þeir ákváðu því að setja skjaldarmerki Íslands á bakhlið skírteinisins á bláan grunn.

Nýja skírteinið var svipað því íslenska nema á ensku.
Nýja skírteinið var svipað því íslenska nema á ensku. Ljósmynd/Aðsend
Bakhlið skírteinisins sem Kristján og vinur hans hönnuðu.
Bakhlið skírteinisins sem Kristján og vinur hans hönnuðu. Ljósmynd/Aðsend

Daginn eftir brunuðu Kristján og Ásdís í prentsmiðju í Tallinn þar sem þau fengu nýja skráningarskírteinið prentað út og plastað. Það var hannað í sömu stærð og íslenska vegabréfið svo það smellpassaði þar inn í.

Ásdís fór í flug til Moskvu á meðan Kristján hjólaði að annarri landamærastöð þar sem engar athugasemdir voru gerðar við skráningarskírteinið og hann því loks kominn til Rússlands. Þá tók við 800 kílómetra ferðalag til Moskvu.

Kristján er ekki á því að hann hafi falsað neitt heldur lítur hann svo á að kortið sem þeir vinirnir hönnuðu sé einungis til þess að gera það skiljanlegt fyrir aðra. Ekkert sem stendur í nýja skírteininu er rangt, heldur einungis á öðru tungumáli.

Við erum bara að gera það læsilegt fyrir aðra. Framleiðslunúmer. Það er enginn erlendis sem skilur það orð, útskýrir Kristján. 

Hann er afar ánægður með hönnun þeirra félaga og segist ætla á fund Þórólfs Árnasonar, forstjóra Samgöngustofu, og gefa honum hönnunina og segja, svona áttu að hafa þetta. Þetta svínvirkar. Ég er búinn að prófa þetta.

Var ekki með sjálfum mér

Kristján náði sem betur fer á leikinn á móti Argentínu  í tæka tíð en hann sá þó fljótlega eftir því. Hann sem hafði aldrei haft áhuga á knattspyrnu var þarna mættur á stærsta knattspyrnumót í heimi og hann átti erfitt með sig. 

Ég var alveg á nálum fyrir leikinn. Ég var bara ekki með sjálfum mér fannst mér. Ég var svo stressaður, segir Kristján. Þegar hann gekk svo upp í stúku leikvangsins kom í ljós að hann sat með aðstandendum og fjölskyldum leikmanna. Við hlið hans var fjölskylda Halldórs Hannessonar landsliðsmarkmanns. Ég var bara hálfpartinn í losti, segir Kristján.

Svo byrjar leikurinn og ég hugsaði með mér hvern djöfulinn ég væri að gera hérna. Ég hef ekki taugar í þetta, segir hann og var að íhuga að fara af vellinum en ákvað að leyfa ekki gunguhættinum“ í sjálfum sér að stjórna för. Ástandið versnaði þó bara stuttu síðar þegar Sergio Agüero kom Argentínumönnum yfir í leiknum með glæsilegu marki. Þá hugsaði maður aftur, djöfullinn þetta eru algjör mistök að vera hérna.

En sem betur fer fyrir Kristján og aðra Íslendinga breyttist sú staða fljótt þegar Alfreð Finnbogason skoraði og jafnaði metin með fyrsta marki Íslands í lokakeppni heimsmeistaramóts í knattspyrnu. Í seinni hálfleik varði Hannes Halldórsson svo víti frá Messi og þá leið Kristjáni töluvert betur. 

Þá náttúrulega fer adrenalínið allt upp. Allt tryllist og allir í kring um okkur. Við föðmumst öll og Halldór pabbi Hannesar og Halla konan hans, við erum þarna alveg í sjokki, segir Kristján sem á erfitt með að lýsa þessum ótrúlegu augnablikum.

Það blossaði upp einhver ættjarðarást, segir hann hlæjandi.

Í þessum gríðarlega tilfinningarússíbana sem átti sér stað á leikvanginum í Moskvu ákvað Kristján að hann gæti ekki látið staðar numið úr því sem komið var og sagði viðstöddum að hann væri á leiðinni til Volgograd að sjá næsta leik íslenska liðsins á móti Nígeríu.

Við ferðalagið, sem átti upphaflega að taka endi í Moskvu, bættust því rúmlega eitt þúsund kílómetrar suður og annað eins til baka. 

Yndisleg stund í Volgograd

Það var þannig að ég skellti mér til Volgograd og þar fann ég heimagistingu. Kynntist þar alveg yndislegri rússneskri fjölskyldu. Ég var hjá þeim í fjórar nætur og þau dekruðu svoleiðis við mig. Keyptu inn fyrir mig mat og þvoðu af mér. Þetta var yndisleg stund alveg, segir Kristján sem hefur heillast mikið af Rússum og gestrisni þeirra á ferðalaginu.

Á meðan dvölinni í Volgograd stóð notaði Kristján tímann til að skoða sig um í borginni. Í einni skoðunarferðinni gaf rússneskur maður sig á tal við Kristján og spjölluðu þeir dágóða stund. Í ljós kom að Rússinn var þáttagerðarmaður hjá rússneska ríkissjónvarpinu og heillaðist hann svo af Kristjáni og ferðalagi hans að hann vildi ólmur fá að taka viðtal við Kristján, sem hann samþykkti. Úr varð tveggja tíma upptökuferli þar sem Kristján var spurður spjörunum úr og látinn hjóla um borgina í fylgd með upptökuliði.

Þegar kom að Nígeríuleiknum var Kristján mun rólegri en fyrir leikinn á móti Argentínu. Ég var alveg sultuslakur þarna. Mér fannst þetta einhvern veginn bara vera spurning um að við værum að fara vinna þennan leik, segir Kristján.

Því miður tapaði Ísland þó leiknum og vonir liðsins um að komast upp úr riðlinum orðnar verulega litlar. Kristján lét vonbrigðin þó ekki draga úr sér allan mátt heldur ákvað að klára ferðina með því að sjá síðasta leik Íslands á móti Króatíu í Rostov.

Ég hugsaði með mér, okei ég fer bara þangað og tek þetta alla leið með strákunum. Ég sýni þeim þá virðingu sem ég get sýnt þeim með því að fylgja þeim alla leið, segir hann staðráðinn í að leggja sitt af mörkum.

Grátlegt tap í Rostov

Við tók tæplega 500 kílómetra akstur til Rostov en í þetta skiptið var hann ekki einn því með honum á hjólinu var Baldur Kristjánsson, ljósmyndari og sonur Kristjáns.

Kristján Gíslason og sonur hans Baldur Kristjánsson fóru til Rostov …
Kristján Gíslason og sonur hans Baldur Kristjánsson fóru til Rostov á mótorhjóli. Ljósmynd/Aðsend

Í Rostov nýtti Kristján tímann til að fara í nudd enda stífur eftir langt og mikið ferðalag. Þó hann hafi ekki verið bjartsýnn fyrir leikinn á móti Króatíu var hann ákveðinn í því að ef Íslands skyldi komast í útsláttarkeppni mótsins þó myndi hann halda áfram að fylgja liðinu eftir.

Grátlegt tap Íslands varð niðurstaða leiksins og þá var kominn tími til að koma sér heim til Íslands. Kristján reyndi þó að einblína jákvæðu hlutina og skrifaði dagbókarfærslu:

Nú er þessu ævintýri lokið og nú hefst hið daglega líf hjá fótboltastrákunum og okkur hinum. Það sem stendur upp úr hjá mér, er þessi gríðarlega stemming sem skapaðist hér í Rússlandi. Auðvitað er ég ekki dómbær á þetta vegna vanþekkingar minnar á knattspyrnu. Ég get hins vegar talað út frá sjálfum mér og um leið viðurkennt að knattspyrnan, bæði íþróttin og öll umgjörðin í kringum hana er mannbætandi á svo margan hátt. Lífið á ekki að snúast um leiðindi. Það á að snúast um skemmtilegheit og jákvæðni. Svo sannarlega hef ég upplifað það á þessu fyrsta alþjóðlega móti mínu og tel mig hafa öðlast skilning á þessari íþrótt. Samt sem áður þá verðum við að hafa í huga að þetta er bara leikur“.

Orð að sönnu.

Ætlaði að hjóla í gegnum átakasvæði

Heimferðin gekk ekki klakklaust fyrir sig. Kristján hafði ákveðið að fara í gegn um Úkraínu og Moldavíu til að komast til Rúmeníu þar sem hann ætlaði að finna geymslustað fyrir mótorhjólið og fljúga heim.

Rétt fyrir brottför hitti hann tvo Bandaríkjamenn, annar þeirra var fyrrum hermaður. Sá mælti eindregið með því að fara frekar í gegnum Tyrkland þar sem átök geisuðu víðsvegar um Úkraínu. Hermaðurinn fyrrverandi sýndi Kristjáni hitakort af svæðum í Úkraínu þar sem hætta var á ferðum.

Kristján lét þó ekki segjast enda fannst honum viðvaranir Bandaríkjamannsins full yfirdrifnar. Auk þess var svæðið sem hann ætlaði að keyra í gegn um Úkraínu ekki nema 100 kílómetrar. Hann hélt sig því við upprunalega áætlun.

Þegar hann var farinn að nálgast landamæri Úkraínu runnu þó á hann tvær grímur. Hann tók eftir því að engin umferð var á svæðinu og ákvað að stöðva á bensínsstöð. Þar tók hann afrit af öllum gögnum á síma sínum ef ske kynni að síminn yrði haldlagður. Áður en hann hélt af stað lokaspölinn að landamærunum spurði hann afgreiðslustúlku hvort það væri öruggt að fara inn í Úkraínu. Þú verður að tala við landamæraverðina, svaraði stúlkan.

Á landamærunum var hann beðinn að sýna alla pappíra, sem hann gerði, þar á meðal skráningarskírteinið sem hann hafði látið vin sinn útbúa á ensku. Engar athugasemdir voru gerðar við skjölin en landamæravörðurinn kallaði þó á yfirmann sinn. 

Yfirmaðurinn sem var ungur maður og mjög almennilegur sagði Kristjáni að hann myndi hleypa honum í gegn en varaði hann þó við því að væri að fara inn á átakasvæði. Þar geisaði stríð og yfirmaðurinn gat ekki ábyrgst hvernig Úkraínumenn myndu taka á móti honum. Kristján spurði hann beint út hversu alvarlegt ástandið væri. Yfirmaðurinn ráðlagði honum að snúa við.

Kristján ákvað því að halda aftur til Rostov og ráða ráðum sínum. Þegar blaðamaður átti síðast samskipti við Kristján þá var hann kominn langleiðina til Minsk í Hvíta-Rússlandi og ætlar alla leið til München í Þýskalandi þar sem hann ætlar að skilja hjólið eftir og fljúga heim til Íslands.

Ef það gengur eftir þá mun Kristján hafa hjólað rúmlega 10.000 kílómetra á þessu ferðalagi sem upphaflega átti einungis að vera ferð til Moskvu til að horfa á einn leik og svo heim aftur.

Heimildamynd væntanleg

Auk þess að hafa hjólað um Rússland og nágrannaríki síðustu vikur hefur Kristján líka hjólað hringinn í kringum hnöttinn. Það gerði hann árið 2014 þrátt fyrir að hafa ekki byrjað að keyra mótorhjól fyrr en tveimur árum fyrr. Það er algjör toppur að ferðast á mótorhjóli, segir hann.

Kristján hefur verið duglegur að safna myndefni á ferðalögum sínum og heldur að auki dagbók þar sem hann skráir samviskusamlega niður hvað á daga hans drífur. Í haust stendur til að gefa út heimildarmynd í þremur þáttum um ferðalag Kristjáns hringinn í kringum hnöttinn sem og bók sem Helga Guðrún Johnson hefur unnið upp úr dagbókarfærslum Kristjáns frá ferðinni.

Ágóðann af sýningarrétti myndarinnar og sölu bókarinnar ætlar Kristján að gefa til góðferðarmála. Hann sér fyrir sér að styrkja þær fjölskyldur sem hann hitti á ferðalaginu vegna þess að án þeirra hefði þessi ferð aldrei orðið jafn tilkomumikil og raun ber vitni.

Ætla að hjóla eins lengi og þau geta

Hann og Ásdís kona hans eru hvergi nærri hætt því að ferðast og ætla sér að hjóla enn meira á næstu árum. 

Það er yfirlýst markmið okkar hjóna að nota þessi ár okkar, hvort sem þau verða fimm eða tíu eða hvað sem er, eins mikið og við getum áður en við förum að eldast það mikið að maður treystir sér ekki í svona ferðalag,“ segir Kristján.

Kristján vill þó ekki kannast við að vera mótorhjólamaður í hefðbundnum skilningi þess orðs.

Ég er fyrst og fremst ferðamaður á mótorhjóli, ekki mótorhjólamaður, segir Kristján að lokum.

Hægt er skoða myndir og dagbókarfærslur Kristjáns af ferðalögum hans á vefsíðu hans og Instagram.

Kristján skoðar sig um í Rússlandi.
Kristján skoðar sig um í Rússlandi. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert