Tveggja herbergja íbúðir frá 96.000 á mánuði

Bygging er hafin á tæplega 238 íbúðum Bjargs og um …
Bygging er hafin á tæplega 238 íbúðum Bjargs og um 430 eru í hönnunarferli. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Bjarg íbúðarfélag, sem stofnað var af ASÍ og BSRB, hyggst byggja um 1.400 leiguíbúðir á næstu fjórum árum. Leiguverð á tveggja herbergja íbúðum, sem verða að meðaltali 45 fermetrar, verður samkvæmt áætlunum á bilinu 96.000 til 130.000 krónur. Meðalleiguverð á fermetra á höfuðborgarsvæðinu var í mars um 2.750 krónur eða um 124.000 á mánuði fyrir 45 fermetra íbúð. Stefnt er á að fyrstu íbúðir verði afhentar um mitt næsta ár.

Meðalstærð þriggja herbergja íbúða verður um 70 fermetrar og fjögurra herbergja íbúða um 85 fermetrar. Leiguverð íbúðanna verður misjafnt á milli staðsetninga en félagið hefur gert áætlanir fyrir íbúðir sínar á Móavegi, Akranesi og Urðarbrunni.

Áætlað leiguverð þriggja herbergja íbúðar er frá 128.000 til 169.000 og á bilinu 146.000 til 200.000 fyrir fjögurra herbergja íbúðir. Greiðslubyrði leigu miðað við lágmarkslaun gæti orðið frá 55.000 fyrir tveggja herbergja íbúð upp í 99.000 fyrir fjögurra herbergja íbúð þegar tekið er tillit til húsnæðisbóta. Leiguverð 76 fermetra þriggja herbergja íbúðar á stúdentagörðunum, Eggertsgötu, er um 131.000 til samanburðar og leiguverð 36 fermetra stúdíóíbúðar á sama stað er um 91.000.

Opnað hefur verið fyrir skráningu á biðlista hjá Bjargi og fer hún fram hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert