Töldu handritin vera frægan leikara

Guðvarður Már Gunnlaugsson flutti handritin heim frá Danmörku fyrr í …
Guðvarður Már Gunnlaugsson flutti handritin heim frá Danmörku fyrr í dag ásamt Þórunni Sigurðardóttur, rannsóknarprófessor við Árnastofnun. mbl.is/Valli

„Við erum alveg gríðarlega glöð og ánægð. Þetta er stór stund fyrir okkur og almenning allan og mjög merkilegt að við fáum einmitt þessi tvö handrit í heimsókn,“ segir Guðrún Nordal, forstöðukona Árnastofnunar. Í dag komu til Íslands tveir einstakir dýrgripir í láni frá Danmörku, annars vegar Ormsbók, eitt höfuðhandrita Snorra-Eddu og hins vegar Reykjabók Njálu sem er elsta nær heila handrit sögunnar. Koma handritanna til landsins fór ekki fram hjá ferðalöngum á Keflavíkurflugvelli en margir gestir héldu einfaldlega að mættur væri til landsins frægur leikari eða jafnvel erlendur forseti.

Handritin fóru í fylgd lögreglu í gegnum flugstöðina áður en þau fóru svo í fylgd sérsveitar ríkislögreglustjóra í húsakynni Árnastofnunar þar sem þau verða varðveitt fram að sýningunni „Lífsblómið  Fullveldi í 100 ár“ sem opnuð verður í Listasafni Íslands 18. júlí í tilefni aldarafmælis fullveldis Íslands. Þar munu handritin tvö leika lykilhlutverk fram til loka sýningarinnar undir miðjan desember þegar þeim verður svo skilað til Danmerkur.

Reykjabók Njálu.
Reykjabók Njálu. mbl.is/​Hari

Guðrún segir daginn í dag vera mikinn hátíðisdag þar sem handritin séu nú loksins komin aftur til Íslands eftir langa veru í Kaupmannahöfn. Handritin hafa ekki verið hér á landi síðan á tíma Árna Magnússonar og í raun er enn lengra síðan þar sem handritin fóru bæði á flakk á 17. öld áður en þau hlotnuðust svo Árna í Danmörku á 18. öld.

„Við vorum ekki viss um að við fengjum þau vegna þess að þetta eru miklir dýrgripir og ekki einfalt að fá þá lánaða. Við erum því mjög glöð að það hafi tekist því þetta eru handrit sem skipta okkur miklu máli, einkum í sambandi við sýninguna og fullveldisafmælið því það var mikið vísað í menningu okkar og tungumálið í fullveldisbaráttu okkar. Þessir lykilþættir skilgreina okkur sem þjóð og sýna að við erum fullgild menningarþjóð.“

Guðrún Nordal segir komu handritanna til landsins mikið gleðiefni.
Guðrún Nordal segir komu handritanna til landsins mikið gleðiefni. Haraldur Jónasson/Hari

Að sögn Guðrúnar eru handritin einstakur menningararfur sem mikilvægt er að sé sýnilegur. Þegar handritadeila Íslendinga og Dana var leyst lögðu Íslendingar sérlega áherslu á að fá Konungsbók Eddukvæða og Flateyjarbók sem urðu síðar fyrstu tvö handritin sem komu hingað til landsins í apríl árið 1971.

„Til þess að fá þau urðum við að fórna einhverju af því sem við hefðum átt að fá og svo fór að þessi tvö handrit urðu eftir,“ en samkvæmt samkomulagi Íslands og Danmerkur áttu Íslendingar einungis að fá handrit skrifuð á íslensku með efnistök sem vörðuðu Ísland. „Við segjum stundum í gríni að handritin séu í gíslingu og núna höfum við náð til okkar gíslunum, tímabundið,“ segir Guðvarður Már Gunnlaugsson, rannsóknardósent við Árnastofnun. Guðvarður flutti handritin heim frá Danmörku fyrr í dag ásamt Þórunni Sigurðardóttur, rannsóknarprófessor við Árnastofnun.

Ormsbók Snorra-Eddu.
Ormsbók Snorra-Eddu. Haraldur Jónasson/Hari

Guðrún segist finna fyrir miklum áhuga á komu handritanna til landsins. Mikil spenna sé fyrir handritunum sem eru miklir gripir og ekki síður fyrir textum handritanna sem þykja afar einstakir og eru sumir hverjir einungis varðveittir í handritunum tveimur. „Það er mikill áhugi fyrir svona bókmenntum um allan heim. Þetta eru lifandi bókmenntir sem eru enn þá lesnar og þýddar á ótal mörg tungumál. Þess vegna er svo mikilvægt að miðla þessu áfram og mikil gleði að geta sýnt þessa gripi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert