Dæmdur fyrir ítrekuð brot í Vestmannaeyjum

Héraðsdómur Suðurlands.
Héraðsdómur Suðurlands. mbl.is

Karlmaður var í síðustu viku dæmdur í 90 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir ítrekuð brot í Vestmannaeyjum. Var hann meðal annars dæmdur fyrir líkamsárás gegn barni, hótanir, vopnaburð og umferðalagabrot. Gerði lögreglan upptæka öxi hjá manninum og sveðju.

Maðurinn játaði brot sín skýlaust eins og þau voru sett fram í ákæru málsins. Þar segir meðal annars að hann hafi í janúar í fyrra veist að dreng og ýtt honum upp að flaggstöng og tekið um háls hans. Þá veitti hann drengnum eftirför og skellti honum í rúðu í útidyrahurð verslunar þannig að drengurinn fékk punktblæðingu og eymsli.

Þá var maðurinn einnig fundinn sekur um að hafa ógnað og hótað að drepa annan mann og var þá vopnaður stórri heimatilbúinni sveðju. Þegar lögregla gerði leit á heimili mannsins sama dag fannst sveðjan og öxi sem voru gerð upptæk.

Þá var maðurinn fundinn sekur um fjölda umferðalagabrota, allt frá því aka gegn akstursstefnu og yfir í að nota ekki öryggisbelti eða nota farsíma án handfrjáls búnaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert