Læra forritun með léttum leik

Jón Jökull Úlfarsson er á forritunarnámskeiði Skemu fyrir börn.
Jón Jökull Úlfarsson er á forritunarnámskeiði Skemu fyrir börn. mbl.is/Hari

Á forritunarnámskeiði Skemu í Háskólanum í Reykjavík er börnum á aldrinum 7 til 10 ára kennd forritun á skemmtilegan hátt. Þar spila krakkarnir tölvuleikinn Minecraft, forrita inn í leikinn og breyta honum jafnóðum.

Jón Jökull Úlfarsson, nemandi á námskeiðinu, var upptekinn við húsasmíð í Minecraft þegar Morgunblaðið náði tali af honum. Hann hefur gaman af forritun þótt hún sé flókin. „Ég er að safna viði fyrir hús sem ég er að byggja. Maður getur byggt alls konar og það er pínu flókið í byrjun. Þegar ég er búinn að vera lengi verð ég betri.“ Jón þekkir leikinn og hefur spilað hann áður heima. Aðspurður hvort það sé ekki notalegra að vera á sumarnámskeiði inni heldur en úti í rigningunni segir Jón: „Já, já, en stundum er líka mjög skemmtilegt að vera úti.“

Forritunarnámskeið Skemu fyrir börn.
Forritunarnámskeið Skemu fyrir börn. mbl.is/Hari

Jón segist ekki vita hvort hann vilji læra forritun í framtíðinni en hann hefur vissulega gaman af henni.

„Þetta snýst um að læra að skilja undirstöðuatriðin í forritun með hjálp Minecraft,“ segir Eva Sif Einarsdóttir, aðalþjálfari á námskeiðinu. Þá feta börnin sig áfram í leiknum og stjórna honum með forritun. Kubbaforritunin er svo tengd við Minecraft þar sem hægt er að gera ýmislegt. „Í dag eru þau til dæmis að gera verkefni sem snýst um að hoppa lengst út í geim,“ segir Eva.

Verkefnin eru margslungin en eiga þó öll sameiginlegt að í þeim er forritun sem stuðlar að bættri rökhugsun, að mati Evu. Hægt sé að kenna hvað sem er með forritun og tengja hana við margt.

Mikil aðsókn hefur verið á námskeiðin, sem voru líka haldin í vetur. Meirihluti námskeiðanna fylltist í vetur, en í mesta lagi komast 16 krakkar inn á eitt námskeið. Þá er forritun ekki enn kennd í öllum grunnskólum landsins.

mbl.is/Hari
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert