Rússar yfirgáfu fundinn

Fulltrúar Rússlands gengu út af fundi ÖSE í dag.
Fulltrúar Rússlands gengu út af fundi ÖSE í dag. Ljósmynd/OSCE

„Þeir eru náttúrulega viðkvæmir. Það voru samþykktar tvær ályktanir sem létu að mannréttindabrotum á Krímskaga og gegn samkynhneigðum. Þeir lögðu sig fram við að beita allskonar lagatæknilegum og fundarstjórnarlegum atriðum til að málið yrði tekið af dagskrá og ekki tekið til beinnar atkvæðagreiðslu,“ segir Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins um útgöngu Rússa af ársþingi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu í dag.

Bryndís sat þingið fyrir Íslands hönd ásamt Gunnari Braga Sveinssyni, þingmanni Miðflokksins og Guðmundi Andra Thorssyni, þingmanni Samfylkingarinnar.

Samkvæmt Bryndísi fóru ályktanirnar tvær báðar í atkvæðagreiðslu og ljóst var að Rússar voru nokkuð einir á báti. Þeim hafi þá misboðið eitthvað og einfaldlega yfirgefið fundinn. „Þeir voru orðnir reiðir og búnir að vera í einhverjum átökum.“

Af ÖSE-þinginu í gær.
Af ÖSE-þinginu í gær. Ljósmynd/OSCE

Að sögn Bryndísar var mikil og breið samstaða á þinginu með ályktunum tveimur. Önnur þeirra var lögð fram af Úkraínumönnum og snéri að framgöngu Rússa og mannréttindabrotum á Krímskaga. Þá hafi Rússar reynt að beita því fyrir sér sem lagatæknilegu atriði að sá sem lagði tillöguna fram hafi ekki verið viðstaddur heldur varamaður hans og að málið ætti þess vegna ekki að komast til atkvæðagreiðslu en það fékk lítinn hljómgrunn.

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hin tillagan snéri að mannréttindum samkynhneigðra og var lögð fram af Svíum þó að flestar aðrar þjóðir á þinginu hafi einnig tekið undir hana. Rússar báru þá þau rök fyrir sig að samkynhneigð væri vanvirt í Rússlandi til þess að standa vörð um fjölmenningarlegt samfélag og trúfrelsi.

Rússar reyndu hvað þeir gátu að koma málunum tveimur af …
Rússar reyndu hvað þeir gátu að koma málunum tveimur af dagskrá. Ljósmynd/OSCE

„Úkraínumenn og Rússar eru alltaf áberandi á þessum fundum og duglegir að taka til máls og koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Úkraínumenn gera þetta oft og Rússar reyna svo að svara fyrir sig. Úkraínumenn voru því mjög ósáttir við framgöngu Rússa. Þeir nýta þetta tækifæri til að koma því á framfæri við hinar þjóðirnar hvernig gengið er á réttindi þeirra á Krímskaga.“

mbl.is