Fullt hús á fundi ljósmæðra

Ljósmæður hvika hvergi í deilu sinni við ríkið.
Ljósmæður hvika hvergi í deilu sinni við ríkið. mbl/Arnþór Birkisson

Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, segir mikinn samhug ríkja meðal ljósmæðra en þær funduðu í kvöld í húsnæði BHM. Hún segir ljósmæður hvergi hvika en þær vonist að gengið verði til samninga við þær sem allra fyrst. Þá fullyrðir hún að kröfur þeirra muni ekki koma til með að hafa launaskrið í för með sér.

„Í rauninni vorum við bara að fara yfir næstu skref. Nú er yfirvinnuverkfallið að hefjast eftir rétt rúman sólarhring og við vorum að fara yfir það með félagsmönnum hvað það felur í sér og hvað má og hvað má ekki. Það hefur verið boðað til fundar á mánudaginn eftir viku, við vonum að það verði boðað til fundar fyrr, að eitthvað nýtt komi til. En samstaða og styrkur ljósmæðra er ótrúlegur og hér var fullt hús,“ segir Katrín Sif í samtali við mbl.is.

Katrín Sif sagði í samtali við mbl.is í dag að kæmi til þess að stjórvöld settu lög á verkfallið yrði það skammgóður vermir. „Ég get ekki séð annað. Það verða ekki sett lög á konur að sækja aftur um stöðurnar sínar og það eru ekki til aðrar ljósmæður í landinu aðrar en þær sem eru starfandi, þannig að það er engin lausn. Það væri hægt að kaupa sér einhverja örfáa daga til þess að keyra þetta áfram en lengra næði það ekki,“ segir Katrín Sif. 

Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra.
Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra. mbl/Arnþór Birkisson

Þá telur Katrín Sif að verkfall ljósmæðra sé annars eðlis en önnur verkföll til þessa. „Þetta er ótímabundið verkfall og í raun það eina sem gæti stöðvað þetta verkfall eða þessa þróun væri það að það yrði sest niður að samningaborðinu og samið.“

Katrín Sif segir að fullyrðingar fjármálaráðherra í kvöldfréttum RÚV í kvöld, um að samninganefnd ríkisins hafi fullt umboð til að semja, haldi ekki vatni. „Við höfum ekki orðið varar við það umboð og erum þess fullvissar að það verði ekkert launaskrið sem myndast við það að leiðrétta launasetningu okkar. Við erum ekki að fara fram á launahækkun umfram aðra heldur erum við að fara fram á leiðréttingu.“

Hún bendir á að önnur félög innan BHM hafa mörg lýst yfir stuðningi við ljósmæður. „Stuðningsyfirlýsingar annarra félaga bera það með sér að það er fullur skilningur á því að við eigum inni fyrir þessari leiðréttingu. Við erum í startholunum og vonumst til þess að það verði boðað til fundar sem allra fyrst og samið við okkur,“ segir Katrín Sif. 

Mikill samhugur var meðal ljósmæðra á fundinum í kvöld.
Mikill samhugur var meðal ljósmæðra á fundinum í kvöld. mbl/Arnþór Birkisson
mbl.is

Bloggað um fréttina