„Ávísun á stórfellda réttaróvissu“

Hagsmunasamtök heimilanna vekja á heimasíðu sinni athygli á dómi Landsréttar þar sem veðskuldabréf Landsbankans sem gefið var út vegna fasteignaláns er ógilt. Í grein á heimasíðu samtakanna segir að dómurinn sé „ávísun á stórfellda réttaróvissu þegar tekist er á um réttmæti skulda og hver sé eigandi skuldarinnar ef frumrit finnst ekki“.

Landsbankinn krafðist þess að veðskuldabréfið yrði ógilt vegna þess að frumrit samningsins er glatað, en það var upphaflega stílað á Landsbanka Íslands hf., hvers eignir og skuldir voru færðar inn í hinn nýja Landsbanka eftir að bankinn fór á hausinn. Fallist var á kröfur bankans og skuldabréfið ógilt en þar með er er þó ekki sagt að skuldin sé ekki til staðar.

Samningar halda án frumrits

Hjónin, sem höfðu tekið lánið, sögðu ósannað að Landsbanki Íslands hf. hafi átt bréfið þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar bankans í október 2008. Í dómnum er öllum málsástæðum þeirra þó hafnað og sagt að hjónunum hafi ekki tekist að hnekkja því að bankinn sé réttmætur eigandi veðskuldabréfsins enda hafi þau ekki greitt af skuldinni til annars eða sýnt fram á að skuldabréfið hafi verið framselt öðrum.

Eyvindur Gunnarsson, prófessor og sérfræðingur í kröfurétti, segir engin nýmæli að farið sé í ógildingarmál sem þessi. „Það er margviðurkennt að samningar halda áfram að vera til þrátt fyrir að frumrit samninga séu ekki til staðar.“

Hann segir bindandi samninga ekki krefjast sérstakra skjala. Þannig séu munnlegir samningar til að mynda bindandi og tekur sem dæmi samkomulag við iðnaðarmenn sem oft er munnlegt.

„Það eina sem gerist er að þetta hættir að vera viðskiptabréfakrafa og verður almenn krafa,“ en það þýðir að bankinn getur framvísað dómnum sem staðfestingu fyrir skuldinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert