Gagnrýnin „fáránleg og til skammar“

Pia Kjærsgaard á Þingvöllum í gær.
Pia Kjærsgaard á Þingvöllum í gær. mbl.is/Hari

Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins, segir í samtali við dönsku sjónvarpsstöðina TV2 að gagnrýni þingmanna vegna veru hennar á hátíðarfundi á Þingvöllum í gær sé fáránleg. Hún hafi hins vegar ekki tekið eftir mótmælum og notið dvalarinnar á Íslandi.

Þingflokkur Pírata ákvað að sniðganga fundinn vegna veru Kjærsgaard og þá yfirgaf Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingar, þingpalla þegar Kjærsgaard hóf upp raust sína. 

Helga Vala segist í samtali við TV2 ekki hafa verið að beina mótmælum sínum gegn danska þinginu, ríkisstjórninni eða þjóðinni. „Ég vildi bara sýna hvað mér finnst um Kjærsgaard, stefnu hennar og skoðanir í málefnum innflytjenda,“ sagði Helga Vala. 

Helga Vala sést hér ganga burt þegar Kjærsgaard hóf ræðu …
Helga Vala sést hér ganga burt þegar Kjærsgaard hóf ræðu sína. mbl.is/Hari

„Ég skil ekki hvers vegna hún var fengin til að flytja ávarp á þessari stundu,“ sagði Helga Vala og bætti við að staða Kjærsgaard sem þingforseta eigi ekki að vega þyngra á metum en skoðanir hennar í gegnum tíðina.

Kjærsgaard kveðst ánægð að heyra gagnrýni Helgu Völu og segir að fólk á Íslandi hafi það gott en sumir átti sig ekki á því sem gerist í heiminum. „Þau þurfa að átta sig á því hvernig systurflokkur þeirra hagar sér í Danmörku,“ sagði Kjærsgaard en Sósíaldemókratar í Danmörku hafa tekið upp harða stefnu í málefnum innflytjenda. Logi Einarsson, formaður Samfylkingar, gagnrýndi danska kollega sína harðlega á landsfundi flokksins í vor.

Kjærsgaard sagði ummæli þeirra sem mótmæltu komu hennar fáránleg. „Þetta er fáránlegt og skammarlegt. Ekki gagnvart mér, heldur gagnvart Danmörku.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert