Ekki verið að halda upp á afmæli Piu

Helga Vala Helgadóttir segist hafa verið að mótmæla þeim heiðurssessi …
Helga Vala Helgadóttir segist hafa verið að mótmæla þeim heiðurssessi sem Kjærsgaard var veittur, ekki veru hennar sem slíkri. mbl.is/​Hari

„Fyrir mér var þetta mikil sólarhrings hugarangist, þegar ég áttaði mig á að hún var að fara að tala þarna.“ Þetta sagði Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, í þættinum Vikulokin á Rás 1 í morgun, er hún var spurð út í þátttöku sína í hátíðarþingfundi í tilefni fullveldisafmælisins og þátttöku Piu Kjærsgaard, þingfulltrúa danska þingsins, í dagskránni.  

„Ég mætti á Þingvelli,“ segir Helga Vala og kveðst skilja afstöðu Pírata sem sniðgengu fundinn, enda hafi það kostað sig hugarangist að vita af þátttöku Kjærsgaard. „Fyrir mér var þessi viðburður á Þingvöllum þingfundur,“ sagði hún. „Þetta var ekki afmæli Piu og þetta var ekki hátíðarfundur til heiðurs Piu Kjærsgaard. Þannig að að sjálfsögðu mæti ég á þingfundinn og hefði mætt á hátíðarfund líka ef svo hefði verið, af því að við vorum að halda upp á þennan 100 ára afmælissamning um fullveldi Íslands.“

Hún hafi því bara sest í brekkuna á Þingvöllum er hún stóð upp frá ræðu Kjærsgaard og hlustað þar á Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, er hann flutti sína tölu.

Helga Vala sést hér ganga burt er Kjærsgaard hóf ræðu …
Helga Vala sést hér ganga burt er Kjærsgaard hóf ræðu sína. mbl.is/Hari

Veittur sérstakur heiðurssess

„Um kvöldið er heldur ekki um að ræða afmæli Piu Kjærsgaard og það er ekki heldur verið að halda upp á hennar veru á Íslandi eða veita henni einhverja hátíðarsamkomu. Hún er hins vegar fengin til að tala á báðum stöðum og er veittur sérstakur heiðurssess við hliðina á forsetahjónunum á Þingvöllum og það var það sem ég var að mótmæla,“ sagði Helga Vala.

„Þingforsetar annarra ríkja sátu bara með öðrum hátíðargestum og ég hefði ekkert staðið upp og yfirgefið svæðið ef hún, eins og aðrir þingforsetar, hefði bara setið þar.“

Helgi Seljan spurði Helgu Völu því næst hvers vegna henni hafi verið illa við að sitja undir ræðum Kjærsgaard. „Frá því að Pia Kjærsgaard hóf afskipti af stjórnmálum fyrir rúmum 20 árum hefur hún með orðum sínum og gjörðum haft uppi mjög meiðandi ummæli um ákveðna þjóðfélagshópa,“ sagði hún. Kjærsgaard hafi veist að fólki sem hefur litla rödd í dönsku og evrópsku samfélagi.  Hún hafi verið leiðandi í hatursorðræðu í garð útlendinga, innflytjenda og flóttamanna.

Aðrir hafi fylkt sér í kringum þessa stefnu Kjærsgaard með svipuðum hætti og hafi beinlínis meitt fjölda fólks.

„Við erum að tala um að byggja undir aðskilnað og hennar aðgerðir hafa verið afgerandi í því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert