Keilir opnar starfsstöð á Spáni

Flugakademía Keilis hefur opnað starfsstöð fyrir utan Barcelona á Spáni.
Flugakademía Keilis hefur opnað starfsstöð fyrir utan Barcelona á Spáni. Ljósmynd/Keilir

Flugakademía Keilis hefur opnað starfsstöð fyrir utan Barcelona á Spáni og er Keilir, að fram kemur í fréttatilkynningu, þar með fyrsti flugskóli landsins til að halda úti verklegu flugnámi í tveimur löndum. Er þetta sagt vera gert „til að mæta auknum áhuga og tryggja að skólinn geti kennt verklegt flugnám allt árið um kring.“

Að jafnaði verða um ellefu nemendur Keilis í starfsstöðinni í tvo mánuði í senn og er stefnt að því að nemendur skólans fljúgi árlega um 3.000 klukkutíma á Spáni.

Undirbúningur fyrir opnun starfsstöðina, sem er í bænum Sabadell rétt fyrir utan Barcelona, hefur staðið yfir í nokkurn tíma.

Haft er eftir Snorra Pál Snorrasyni, skólastjóra Flugakademíu Keilis, að þetta sé stórt skref fyrir skólann þar sem nemendur geti nú lokið námi sínu hraðar.

„Flestir nemendur okkar hafa fengið atvinnutilboð áður en þeir hafa lokið námi hjá okkur, bæði frá innlendum og erlendum flugfélögum, þannig að við höfum einsett okkur að gera þeim kleift að komast á vinnumarkaðinn eins fljótt og mögulegt er“ segir Rúnar Árnason, forstöðumaður Flugakademíu Keilis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert