Íbúafjöldinn mun allavega tífaldast

Búist er við að íbúafjöldi í Borgarfirði Eystra muni margfaldast …
Búist er við að íbúafjöldi í Borgarfirði Eystra muni margfaldast um helgina. Ljósmynd/Bræðslan/ EK Ólafs

Íbúafjöldi á Borgarfiðri Eystra kemur til með að allavega tífaldast um helgina þegar ein afskekktasta tónlistarhátíð landsins, Bræðslan, verður haldin í fjórtánda skiptið.

„Undirbúningurinn hefur gengið alveg ljómandi vel. Þetta eru þaulreyndar hendur sem koma að þessu öllu saman. Það er búið að setja upp sviðið og allt að smella saman,“ segir Magni Ásgeirsson tónlistarmaður. Magni stendur að baki hátíðarinnar ásamt bróður sínum Áskeli Heiðari Ásgeirssyni.

Dagskráin er fjölbreytt og fjölskylduvæn að vanda. „Á Bræðslunni sjálfri á laugardaginn koma fram Daði Freyr, Stjórnin, Emmsjé Gauti, Agent Fresco og Between Mountains. Síðan er hellingur af viðburðum út vikuna. Þetta byrjar í kvöld með „off-venue“ dagskrá. Það verða borgfirskir tónleikar í kvöld þar sem heimamenn og vinir stíga á stokk. Síðan annað kvöld er fimmtudagsforleikurinn okkar og á föstudaginn eru tónleikar með JóaPé og Króla, Mugison, Sigríði Thorlacious, Sigurði Guðmundssyni og Amabadama.“

Úlfur Úlfur tróð upp á Bræðslunni í fyrra.
Úlfur Úlfur tróð upp á Bræðslunni í fyrra. Ljósmynd/Bræðslan/EK Ólafs

Þrátt fyrir gríðarlega smæð bæjarfélagsins verður nóg að gera fyrir Bræðslugesti fyrir utan tónleikadagskrána. „Hér eru fjórir veitingastaðir, spa, kajakar og endalaust af hvölum hérna vaðandi í firðinum, lundar og fleira. Mjög undarleg stemning,“ segir Magni.

Bræðsluvikan hófst um síðustu helgi með Dyrfjallahlaupi sem er rúmlega tuttugu kílómetra utanvegarhlaup. „Það voru hérna um 170 manns að hlaupa um fjöll og firnindi. Svo er bara matur og tónlist og almenn gleði í viku.“ Dagskráin endar svo með Bræðslunni sjálfri á laugardagskvöld.

Magni áætlar að um það bil fimmtán hundruð manns muni leggja leið sína í fjörðinn á einhverjum tímapunkti hátíðarinnar. Íbúafjöldi byggðarinnar mun því líkast til rúmlega fimmtánfaldast yfir helgina, en innan við hundrað Íslendingar voru búsettir á Borgarfirði Eystra árið 2015 samkvæmt tölum Hagstofu.

„Það eru alltaf jafn margir á Bræðslunni sjálfri. Hún er alltaf uppseld. Þar eru svona tæplega þúsund manns. Svo er mismunandi hve margir koma í fjörðinn á hina tónleikana og svona til að drekka þetta í sig.“

Magni og Helgi Björnsson á Bræðslunni 2017.
Magni og Helgi Björnsson á Bræðslunni 2017. Ljósmynd/Bræðslan/EK Ólafs

Gestir Bræðslunnar ættu að vera við öllu búnir þegar kemur að veðurfari yfir helgina. „Spáin er upp og ofan. Það er sól og blíða í dag, svo gæti komið smá rigning og svo aftur sól og blíða. Þetta breytist á svona tíu mínútna fresti en það verður allavega hlýtt, það eru allir sammála um það. Við erum nú búin að eiga ólýsanlega gott sumar hingað til þannig að við getum ekkert kvartað.“

Bræðslan hefur verið haldin árlega frá og með árinu 2005, alltaf helgina fyrir verslunarmannahelgi. Samkvæmt Magna er sérstaða Bræðslunnar í flóru íslenskra útihátíða, líkast til hve fallegur og afskekktur Borgarfjörður er. „Þetta er sambland af náttúrunni og tónlistinni. Afslöppun og gleði. Það er hálfgerður hippafílingur hérna, það eru allir vinir og ekkert vesen. Þetta er líka mjög fjölskylduvænt og þægilegt. Þetta er allt svo fallegt,“ segir Magni.

Miðaverð á Bræðsluna er 9.300 krónur og hægt er kaupa miða hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert