Franska tengingin mikilvæg Fáskrúðsfirði

Mikið er um dýrðir ár hvert á Frönskum dögum á …
Mikið er um dýrðir ár hvert á Frönskum dögum á Fáskrúðsfirði. mbl.is/Albert Kemp

Mikið verður um dýrðir á Fáskrúðsfirði um helgina þar sem bæjarhátíðin Franskir dagar verður haldin í 23. sinn. Dagskrá hátíðarinnar er mikil og fjölbreytt og segir einn skipuleggjenda hátíðarinnar að undirbúningurinn hafi gengið afar vel. Gert er ráð fyrir að fólksfjöldi Fáskrúðsfjarðar þrefaldist á meðan á hátíðinni stendur, t.a.m. með komu franskra gesta, en tenging Fáskrúðsfjarðar við Frakkland er sterk og á sér langa sögu. 

„Undirbúningurinn hefur gengið alveg ljómandi vel. Hér verður heilmikið um að vera, þétt dagskrá frá því í kvöld og fram á sunnudag,“ segir María Ósk Óskarsdóttir Snædal, ein skipuleggjenda hátíðarinnar. Í kvöld verður gefinn forsmekkur af hátíðinni þegar hjólreiðakeppnin Tour de Fáskrúðsfjörður verður ræst, svokölluð Kenderíisganga verður gengin og tónlistarmaðurinn KK stígur á stokk. 

Meðal þess sem er á dagskrá bæjarhátíðarinnar er brekkusöngur.
Meðal þess sem er á dagskrá bæjarhátíðarinnar er brekkusöngur. Ljósmynd/Aðsend

Meðal annarra viðburða um helgina eru Fáskrúðsfjarðarhlaup, búningahlaup, harmonikkudansleikur, brekkusöngur, götumarkaður og Íslandsmeistaramót í Pétanque, frönsku kúluspili.

„Hátíðin er hefðbundin í ár. Við leggjum upp með að hafa afþreyingu fyrir alla, fyrst og fremst, og líka að bjóða viðburðina helst ókeypis ef við mögulega getum. Við erum t.d. með ókeypis í öll leiktæki fyrir börn,“ segir María Ósk.

Fjöldi brottfluttra Fáskrúðsfirðinga leggur leið sína austur yfir þessa helgi og áætlað er að um tvö þúsund manns verði í bænum um helgina. „Íbúar bæjarins eru í kring um 750. Fjöldinn í bænum þrefaldast því yfir helgina,“ segir María Ósk og hlær. Upplýsingar um hátíðina er að finna hér.

Sterk tengsl við Frakkland

Aðspurð hvaðan hátíðin dragi nafn sitt segir María Ósk að nafnið komi til af tengingu bæjarins við franska sjómenn. 

Tengslabönd Fáskrúðsfjarðar við frönsku þjóðina hafa verið sterk allt frá því að fjöldi franskra sjómanna sótti á Íslandsmið á 19. öld. Völdu Frakkar sér Fáskrúðsfjörð sem bækistöð á Austfjörðum og reistu m.a. spítala á Fáskrúðsfirði. Margir sjómannanna létu lífið og er því grafreitur 49 franskra sjómanna í bænum. Fáskrúðsfirðingar vilja halda í tengslin við frönsku þjóðina, eiga t.a.m. franskan vinabæ, Gravelines, og er bæjarhátíðin Franskir dagar liður í að heiðra tengslin við Frakka. Nánar má lesa um sögu tengslanna á síðu franska spítalans.

María Ósk segir að von sé á að nokkrir Frakkar geri sér ferð á Fáskrúðsfjörð til þess að vera viðstaddir bæjarhátíðina. „Við eigum heilmikið af minjum um þennan tíma, franska spítalann, grafreit utan við bæinn og ýmislegt sem við erum búin að varðveita. Við viljum halda í þessa tengingu, þetta er okkar menningararfur,“ segir María Ósk að lokum. 

Frá frönskum dögum 2014.
Frá frönskum dögum 2014. mbl.is/Albert Kemp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert