Katrín Tanja fundið töfrana á ný

Katrín Tanja á Evrópuleikunum í crossfit.
Katrín Tanja á Evrópuleikunum í crossfit.

Katrín Tanja Davíðsdóttir segist hafa tapað „töfrunum“ á heimsleikunum í crossfit í fyrra. Hún hafnaði í fimmta sæti eftir að hafa sigrað á leikunum 2015 og 2016 og þá hlotið titilinn hraustasta kona heims. Strax í kjölfar leikanna í fyrra fór hún yfir málin með þjálfara sínum og ákvað að í ár ætlaði hún ekki að sjá á eftir neinu. 

Þetta kemur fram í ítarlegri grein um Katrínu á vef bandarísku fréttastöðvarinnar CNN.

„Ég gerði ekki neitt rangt,“ rifjar Katrín Tanja upp um árangurinn í fyrra. Er hún lauk hverri keppnisgrein fannst henni vel hafa gengið. Hún hafi hins vegar tapað „töfrunum“ eins og hún orðar það. Og það hafi vakið hana.

Eftir að síðustu keppnisgrein lauk og Katrín var ásamt þjálfara sínum Ben Bergeron á leið á hótelið hafi þau lagt bílnum í vegkanti og farið yfir málin. Þau fóru yfir það sem þau ætluðu að gera til að þetta myndi aldrei koma fyrir aftur. Á því augnabliki hófst undirbúningur hennar fyrir heimsleikana í ár sem fram fara dagana 1.-5. ágúst í Madison í Wisconsin.

Katrín jók æfingaálagið sem hafði þó verið mikið fyrir. „Ég er ekki með fleiri klukkustundir í sólarhringnum til að æfa,“ segir hún við CNN. „Og ég elska það.“

Hún líkir sjálfri sér við sleðahund og er slíkt vinnudýr hluti af vörumerki hennar. Hún segir sleðahunda elska að vinna og verði óþolinmóðir hef þeir hafa ekki nóg fyrir stafni.

Katrín segir sleðahunda líka vinna í hópum og það geri hún líka og vísar til fjölskyldu sinnar. Hún flutti frá Íslandi og til Boston og þangað kemur fjölskyldan að heimsækja hana.

Í viðtalinu, sem tekið var í maí en birt í dag, segir Katrín að þrátt fyrir aukið æfingaálag sé hún einnig að njóta sín betur. Og að það virðist vera að skila árangri.

Í svæðisbundnum undanúrslitum leikanna í maí sigraði Katrín Tanja í fimm keppnisgreinum af sex. Þannig virðist hún hafa fundið „töfrana“ á ný. Í frétt CNN kemur þó fram að töfrarnir séu engin tilviljun: Þeir séu afleiðing skipulagningar og þrotlausrar vinnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert