25 stig í Reykjavík „ef allt gengur eftir“

Veðurspá á höfuðborgarsvæðinu klukkan 13 á sunnudag.
Veðurspá á höfuðborgarsvæðinu klukkan 13 á sunnudag. Skjáskot/Veðurstofan

„Ég þykist alveg vita hvað þú ert að tala um,“ sagði Óli Þór Árnason veðurfræðingur, er blaðamaður mbl.is sló á þráðinn til hans nú fyrir hádegi með fyrirspurn um ákveðið spákort Veðurstofunnar: Sunnudaginn 29. júlí árið 2018 klukkan 13. Á kortinu má sjá að allar hitatölur á höfuðborgarsvæðinu eru yfir 20 gráðum og sú hæsta hvorki meira né minna en 25 stig. Spákortið gengur nú manna á milli á samfélagsmiðlum og Reykvíkingar og nærsveitamenn ætla að krossleggja fingur og vona hið besta.

En hversu líklegt er að þessi einstaka sólarspá gangi eftir? Verður 25 stiga hiti í Reykjavík á sunnudaginn?

„Það gæti gert það,“ segir Óli Þór. „Þetta er hins vegar mjög afmarkaður og stuttur tímarammi þannig að það þarf í raun allt að ganga eftir til þess að þetta verði einhvers staðar nálægt raunveruleikanum.“

Hann segir að nokkur „ef“ séu því enn til staðar. 

Hver er helsti óvissuþátturinn?

„[Veðrið] þarf ekki að færast nema einhverja tugi kílómetra í norður eða suður til að þetta fari allt í vaskinn,“ segir hann. „Það er rosalega lítið þegar þú ert pínulítið sker lengst úti í Atlantshafi. Hins vegar er spáin mjög eindregin og bendir til þess að þetta gangi eftir. En vindáttin verður að vera akkúrat rétt, vindhraðinn þarf að vera réttur, loftmassinn sem er að koma þarf að hitta á okkur eins og spáin gerir ráð fyrir. Ef þetta verður enn svona á hádegi á morgun þá skal ég vera mun yfirlýsingaglaðari. En í dag set ég ákveðinn fyrirfara.“

Svona er veðurútlitið á höfuðborgarsvæðinu á sunnudag klukkan 14.
Svona er veðurútlitið á höfuðborgarsvæðinu á sunnudag klukkan 14. Skjáskot/Veðurstofan

Hann segist vona að það takist að rjúfa „tuttugu stiga múrinn“ í Reykjavík en að það sé þó ekki sjálfgefið. „En eins og spáin lítur út núna þá byrjar að rigna eftir kvöldmat á sunnudaginn,“ bendir hann á. Þannig að góðviðrisglugginn verður lítill, hvernig sem fer.

Óli Þór segir að úrkomubakki komi seinni partinn á morgun, laugardag, og fari yfir landið um og eftir miðnætti annað kvöld. Á bak við hann liggi hið hlýja loft sem við eigum nú mögulega von á. „Þannig að um nóttina verður býsna hlýtt og ef þetta gengur eftir, að úrkomubakkinn fari yfir og að þetta hlýja loft komist til okkar, þá má eiga von á 15-17 stiga hita undir morgun [á sunnudag] í Reykjavík. Þar með ætti hápunkturinn með mestu hlýindunum að hafa nægan tíma til að komast yfir tuttugu gráðurnar.“

Ef fram fer sem horfir er von á góðum hita frá klukkan 10 um morguninn og til um klukkan 16, sum sé einmitt á þeim tíma dags sem flestir ættu að geta notið veðursins. „Þetta verður ótrúleg heppni ef við hittum á þetta,“ segir Óli Þór.

Þannig að allir ættu að fara að þvo stuttbuxurnar?

„Jú, er það ekki? Strauja þær,“ segir Óli Þór léttur í bragði. 

Hann minnist þess ekki að hitinn hafi farið yfir tuttugu gráður í Reykjavík í fyrra. „Það væri kærkomið eftir þetta sumar að fá að minnsta kosti einn dag yfir tuttugu stig. Þetta verður klárlega langhlýjasti dagurinn [í Reykjavík] það sem af er ári, ef allt gengur eftir.“

Rigning á morgun

Á morgun verður fínasta veður á höfuðborgarsvæðinu framan af degi. Svo mun þykkna upp þegar líður á daginn og seinni partinn er spáð rigningu. 

Veðurvefur mbl.is

Góða veðrið verður ekki staðbundið í Reykjavík og nærsveitum því gangi spár eftir verður blíða víðast hvar á Suður- og Vesturlandi.

„Það verður bara að taka því sem kemur,“ segir Óli Þór eftir að hafa upplýst að útlit sé fyrir að góðviðrið á sunnudag staldri aðeins örstutt við. Kólna mun frekar hratt strax um kvöldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert