Íhugar að fækka fé og selja heyið

Heyskapur gekk misvel í sumar, vel norðanlands en illa sunnanlands, …
Heyskapur gekk misvel í sumar, vel norðanlands en illa sunnanlands, og gæði heyfengsins eru eftir því. mbl.is/Styrmir Kári

„Ég myndi vissulega velta þeim möguleika fyrir mér að fækka fé og selja heyið, ef það mætti. Heyið er að verða verðmætara en lömbin. Talsverður kostnaður er við rúllurnar og eins og staðan er í dag þá stendur sauðféð ekki nægilega vel undir honum,“ segir Trausti Hjálmarsson, sauðfjárbóndi í Austurhlíð 2 í Biskupstungum, spurður hvort hann hefði áhuga á að selja hey til Noregs, ef það byðist. Meginhluti Árnessýslu er á skilgreindum riðusvæðum og fá bændur þar því ekki heilbrigðisvottorð, eins og reglur eru nú túlkaðar.

Áhugasamir kaupendur í Noregi gera minni heilbrigðiskröfur en gilda hér enda eru þeir í neyð og telja áhættuminna að kaupa hey frá Íslandi en mörgum öðrum löndum. Meðal annars miðar norska matvælastofnunin við að riða hafi ekki fundist á viðkomandi svæði í 10 ár en Matvælastofnun hér miðar við 20 ár. Riða kom upp í Austurhlíð fyrir fjórtán árum og tólf ár eru liðin frá því bændur tóku fé að nýju.

Vilja slaka á reglum

Trausti segir að miklar heybirgðir séu á einstaka bæjum, jafnvel á búum þar sem ekki hafi verið sauðfé í áraraðir. Sumir bændur hefðu því svigrúm til að selja hey, ef opnað yrði fyrir það. Hann segist þó ekki verða var við að menn væru að missa sig yfir því að geta ekki selt hey. 

„Ég myndi líklegast láta eitthvað, ef möguleiki væri á því. Annars var síðasta riðutilfellið í Skjálfandahólfi hjá mér en það eru 19 ár síðan, og ekki víst að opnað yrði á það þótt reglum yrði breytt,“ segir Einar Ófeigur Björnsson, sauðfjárbóndi í Lóni II í Kelduhverfi og stjórnarmaður í Bændasamtökum Íslands. Hann segir að verið sé að athuga möguleikana á að slaka eitthvað á reglum en þó þannig að þær samræmist skilyrðum Norðmanna.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert