Fyrstu „alvöruíbúakosningarnar“

Ljósmynd af líkani af nýjum miðbæ á Selfossi. Líkanið er …
Ljósmynd af líkani af nýjum miðbæ á Selfossi. Líkanið er til sýnis á Hótel Selfossi fram að íbúakosningunum á laugardag. Ljósmynd/Aðsend

Framtíðarskipulag miðbæjarsvæðisins á Selfossi er í höndum íbúa Árborgar þegar þeir ganga til íbúakosninga á laugardaginn. Forseti bæjarstjórnar í Árborg segir að kosningarnar séu fyrstu „alvöruíbúakosningarnar“ hér á landi þar sem niðurstaðan verður bindandi fari þátttökuhlutfallið yfir 29 prósent en íbúakosningar eru almennt á Íslandi, samkvæmt sveitarstjórnarlögum, aðeins ráðgefandi.

Þrátt fyrir að íbúar séu á blaði að kjósa um breytt aðal- og deiliskipulag, sem bæjarstjórn Árborgar samþykkti 21. febrúar fer því fjarri að aðeins sé verið að kjósa um byggingarmagn, nýtingarhlutfall eða lóðafjölda. Þvert á móti hefur þróunarfélagið Sigtún sett fram skýrar hugmyndir og áætlanir um hvernig staðið skuli að verkefninu, hvernig hús verði byggð á miðbæjarreitnum og hver verktíminn verður.

Tölvuteiknuð mynd sem sýnir hvernig nýr miðbær kemur til með …
Tölvuteiknuð mynd sem sýnir hvernig nýr miðbær kemur til með að vera samkvæmt skipulaginu sem lagt verður fyrir í kosningunum á laugardag. Nýr miðbær blasir við vegfarendum sem koma akandi frá Hveragerði þegar þeir eru komnir yfir Ölfusárbrú á Selfossi. Tölvumynd/Aðsend

Verkefninu er skipt í tvo áfanga. Í þeim fyrri verða byggð þrettán hús sem öll eiga það sammerkt að hafa einhvern tímann staðið á Íslandi. Meðal húsa má nefna Sigtún, fyrsta kaupfélag Árnesinga, Amtmannshúsið við Amtmannsstíg, Mjólkurbú Flóamanna, ráðherrabústaðinn á Þingvöllum, Edinborgarverslun í Hafnarstræti og Friðriksgáfu á Möðruvöllum.

Veglegasta húsið verður Mjólkurbúið en þar stendur til að setja upp skyr- og mjólkursafn auk matarmarkaðar að fyrirmynd matarmarkaðanna á Hlemmi og Granda. Sagði Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar, í samtali við fréttablaðið Dagskrána 9. ágúst að MS ætli að skapa íslenska skyrinu alþjóðlegt heimili á Selfossi.

Helgi S. Haraldsson, forseti bæjarstjórnar í Árborg.
Helgi S. Haraldsson, forseti bæjarstjórnar í Árborg. Ljósmynd/Aðsend

Samkvæmt upplýsingum frá Sigtúni hefjast framkvæmdir strax að loknum íbúakosningum verði nýtt aðal- og deiliskipulag samþykkt og eru áætluð verklok fyrri helmingsins um páskana 2020. Áætlaður kostnaður vegna fyrri áfangans eru 1.500 milljónir og staðfestir Helgi Helgason, forseti bæjarstjórnar í Árborg, að fjármögnun fyrri hlutans sé tryggð hjá Sigtúni, en sveitarfélagið setti það sem skilyrði fyrir framkvæmdunum að ekki yrði farið af stað nema fjármögnun væri tryggð til að lágmarka áhættu sveitarfélagsins.

„Þeir lögðu fram staðfestingu fyrir bæjarstjórn í vetur,“ segir Helgi en bæjarstjórn vildi að það væri „gulltryggt“ að hans sögn að bæjarfélagið yrði ekki fyrir skaða vegna verkefnisins.

Í síðari áfanga verkefnisins verða byggð 19 hús og er þar meðal annars gert ráð fyrir 85 herbergja hóteli. Áætluð verklok síðari hluta verkefnisins eru 2022.

Aðeins þriðjungur þeirra sem vildu íbúakosningu í Reykjanesbæ árið 2015 enduðu á að kjósa

Misgóð þátttaka hefur verið í íbúakosningum á síðustu árum. Árið 2015 tóku 43,1 prósent íbúa í Ölfusi þátt í rafrænum íbúakosningum þar sem kannaður var hugur kjósenda til þess að hefja viðræður við önnur sveitarfélög um sameiningu. Rétt rúmlega helmingur þeirra sem tóku afstöðu voru andvígir.

Kjörsókn var öllu minni í rafrænum íbúakosningum í Reykjanesbæ árið 2015 um breytingar á deiluskipulagi í Helguvík, eða aðeins 8,71 prósent, en gagnrýnendur sögðu það hafa haft áhrif á kjörsókn að hún væri aðeins ráðgefandi. Aðeins þriðjungur af fjölda þeirra sem skoruðu á bæjaryfirvöld að efna til kosninganna tóku þátt í kosningunum.

Frá Selfossi.
Frá Selfossi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Vill sjá hæga og rólega þróun, engin rassaköst!

Þrátt fyrir að meðbyr virðist nokkur með áformum bæjarstjórnarinnar meðal íbúa á Selfossi eru ekki allir um þau sáttir. „Þessi áform leggjast illa í mig,“ segir Guðmundur Ólafsson, íbúi á Selfossi og fyrrverandi lektor í hagfræði og stærðfræði við Háskóla Íslands og Háskólann á Bifröst. Guðmundur hefur búið í bænum síðan í byrjun árs en faðir hans er fæddur og uppalinn í Byggðarhorni. „Ættmenni mín eru búin að búa á þessu svæði í mörg hundruð ár,“ segir hann léttur.

Guðmundur Ólafsson, fyrrverandi dósent, ætlar að kjósa á móti breyttu …
Guðmundur Ólafsson, fyrrverandi dósent, ætlar að kjósa á móti breyttu skipulagi. Með honum á myndinni er Perla Hlíf Smáradóttir, eiginkona hans. Ljósmynd/Aðsend

Guðmundur segir að það sé algjört glapræði að fara í þessa framkvæmd sem hann telur að muni falla um sjálfa sig og vísar til slæmrar reynslu annarra af sambærilegum framkvæmdum. „Eins og til dæmis Tívolí í Hveragerði og einkaframkvæmd í Keflavík. Þarna er um að ræða áhættu sem er veruleg fyrir lítið sveitarfélag,“ segir Guðmundur. „Síðan held ég að það séu draumórar að halda að þetta muni laða að ferðamenn sem eru flestir aldir upp í mörg hundruð ára borgum. Það er mín skoðun að það sé farsælast að bæir og byggðalög þróist eftir efnum og ástæðum hægt og rólega. Það sem maður lærir af hagfræðinni er að bakföll og byltingar geta brugðið til beggja vona.“

Áætlaður kostnaður við heildarframkvæmdina er á milli fjórir og fimm milljarðar króna og hefur Guðmundur áhyggjur af því að kostnaðurinn lendi á sveitarfélaginu gangi ekki áætlanir Sigtúns eftir. „Samkvæmt ársreikningi 2016 þá eru tekjur bæjarins um sjö milljarðar króna og skuldir um tíu milljarðar. Ef þessum fjórum milljörðum króna yrði bætt við sem ábyrgðum eða skuldum bæjarins þá fer skuldahlutfallið upp í 200 prósent, en 150 prósent er hámarkið samkvæmt lögum,“ segir Guðmundur.

Spurður hvernig uppbyggingu hann vilji sjá á svæðinu segist Guðmundur ekkert viss um að það þurfi að fara í eitthvert sérstakt átak. „Ég vil ekkert endilega sjá neitt, bara sjá bæinn þróast hægt og rólega. Það er kosturinn við Selfoss, þessi hæga og rólega þróun. Frá Flóaáveitu til nútímakaupstaðar, hæg og róleg þróun, engin rassaköst.“

Skemmtilegri bær og spennandi uppbygging

Hlynur Geir Hjartarson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Selfoss og íbúi í bænum til margra ára, er mjög jákvæður í garð uppbyggingarinnar á miðbæjarreitnum. „Fyrst og fremst held ég að Selfyssingar séu orðnir langþreyttir á þessu sári sem miðbæjarreiturinn er. Það er kominn tími á uppbyggingu og nú eru komnar fram fullmótaðar hugmyndir sem hægt er hefja framkvæmdir á strax. Ég fæ ekki séð hvernig hægt er að slá hendinni á móti slíkri uppbyggingu,“ segir Hlynur í samtali við mbl.is.

Hlynur Geir Hjartarson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Selfoss, segir Selfyssinga orðna langþreytta …
Hlynur Geir Hjartarson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Selfoss, segir Selfyssinga orðna langþreytta „á þessu sári sem miðbæjarreiturinn er“ og ætlar að kjósa með breyttu skipulagi. mbl.is/Rax

Hlynur vonar að nýtt skipulag verði samþykkt í íbúakosningu, einfaldlega vegna þess að það mæli mun fleira með því heldur en gegn því. „Þessi gamli, klassíski byggingarstíll er notalegur og gömul Selfosshús verða í forgrunni. Öll verða þess hús með starfsemi og munu koma til með að iða af lífi og sál. Áætlanir um að gera endurbyggt Mjólkurbú að höfuðvígi íslenska skyrsins er líka tækifæri sem er ekki hægt að sleppa,“ segir Hlynur.

Hlynur segir enn fremur að Bæjargarðurinn á Selfossi muni njóta góðs af hinni nýju byggð. „Sigtúnsgarður stækkar í fermetrum í nýju skipulagi og verður í góðu skjóli fyrir nýju húsunum. Okkar árlegu bæjarhátíðir verða miklu skemmtilegri þegar hægt er að tengja Bæjargarðinn við opin miðbæjarsvæði, torg og götur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert