Íhuga nýja málsókn gegn dæmdum veiðiþjófum

Frá Hornhyl í Kjarrá.
Frá Hornhyl í Kjarrá. Hallgrímur H. Gunnarsson

„Veiðifélagið íhugar það alvarlega að fara í einkamál við þessa þjófa. Sérstaklega á grundvelli þess að þeir hafa nú þegar verið sakfelldir fyrir þjófnað,“ segir Magnús Skúlason, formaður veiðifélags Þverár og Kjarrár, í samtali við mbl.is. Veiðiþjófar sem játuðu sök fyrir dómi voru sýknaðir af skaðabótakröfum og þurftu einungis að greiða 50 þúsund króna sekt. Landssamband veiðifélaga vill að refsirammi slíkra brota verði hækkaður.

Héraðsdómur Vesturlands sakfelldi tvo menn fyrir brot á lögum um lax- og silungsveiði fyrir að hafa veitt lax með ólögmætum hætti í Kjarrá í fyrra og án þess að greiða fyrir veiðileyfi. Mennirnir játuðu sök fyrir dómi og voru dæmdir til að greiða 50 þúsund króna sekt sem rann til ríkissjóðs. Veiðileyfasalinn gerði skaðabótakröfu í málinu að fjárhæð 1.470.000 krónur sem samsvarar kostnaði við veiðileyfi í ánni fyrir tvær veiðistangir í þrjá daga. Mennirnir voru sýknaðir af bótakröfum þar sem dómurinn taldi ósannað að veiðileyfaseljandi hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni. Fréttablaðið greindi frá málinu í morgun.

Ekki tekið ákvörðun um áfrýjun

Davíð Másson, stjórnarformaður veiðileyfaseljandans Stara ehf., er ósáttur með dóminn og telur hann sýna að það borgi sig að vera veiðiþjófur í ákveðnum tilvikum. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort dómnum verði áfrýjað eður ei.

„Það rýrir okkar vöru að fólk sé að stelast í hana og hugsanlega með veiðibúnaði sem er ekki leyfilegur í ánni. Þeir viðskiptavinir sem koma á eftir svona veiðiþjófum bera skarðan hlut frá borði eins og við. Þetta bitnar á okkar viðskiptavinum eins og okkur,“ segir Davíð í samtali við mbl.is.

Í skaðabótakröfu Stara ehf. er það fullyrt að með því að veiða með maðk í ánni þar sem einungis er heimilt að veiða með flugu hafi veiðiþjófarnir stofnað lífríki árinnar í mikla hættu. Þá hafi þeir laskað gæði árinnar sem vöru og gert eitt besta veiðisvæði hennar tímabundið óhæft til frekari veiða. Eins og áður segir taldi héraðsdómur ósannað að Stari ehf. hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni og veiðiþjófarnir því sýknaðir af bótakröfum Stara ehf.

Veiðifélag Þverár og Kjarrár íhugar málsókn

Þrátt fyrir niðurstöðu dómsins íhuga landeigendur Kjarrár nú að höfða einkamál gegn veiðiþjófunum. „Þeir hafa nú þegar verið sakfelldir fyrir þjófnað. Bótakröfum leigutakans var hafnað en veiðifélagið getur sett fram sína bótakröfu. Við áskiljum okkur réttinn til að sækja bætur til þessara manna,“ segir Magnús Skúlason, formaður veiðifélags Þverár og Kjarrár.

„Okkur finnst ótækt að menn séu tilbúnir að leggja í rauninni æru sína undir og setjast á sakamannabekk til að stela vöru frekar en að greiða fyrir hana,“ bætir hann við.

Magnús segir að veiðiþjófar fari í hyli sem styggi laxinn og komi róti á hann. Það spilli möguleikum veiðimanna sem á eftir koma og hafa borgað fyrir dýr veiðileyfi.

Frá Gljúfurgöngum í Kjarrá.
Frá Gljúfurgöngum í Kjarrá. mbl.is/Hallgrímur H. Gunnarsson

Þarf að uppfæra refsirammann

Magnús telur einnig að refsiramminn vegna brota af þessu tagi sé of lágur og vill að hann verði endurskoðaður. „Það hefur gleymst að uppfæra refsirammann. Það er sami refsirammi við því að stelast í silungsvatn og rándýra laxveiðiá,“ útskýrir hann.

Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga, tekur undir það og segir sambandið vera að skoða hvaða leiðir séu færar til að herða refsingar við brotum á lögum um lax- og silungsveiði.

„Okkar afstaða er að þessi sektardómur sé of lágur miðað við verðmætin sem menn eru að komast yfir. Menn hefðu átt að fá þarna miklu hærri refsingu. Hún er of væg í rauninni,“ segir Jón Helgi.

„Við höfum í raun verið að skoða þetta, hverjar reglurnar eru í þessu og hvaða leiðir eru færar til að herða á þessu. Við erum að vinna í þessu eins og staðan er,“ bætir Jón Helgi við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert