Segja rök um lengd einangrunar ekki standast

HRFÍ segir skilyrði um fjögurra vikna einangrun ekki standast kröfu …
HRFÍ segir skilyrði um fjögurra vikna einangrun ekki standast kröfu um velferð dýra. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Hundaræktarfélag Íslands (HRFÍ) telur þau rök sem fram hafa komið um lengd einangrunar gæludýra ekki standast. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem félagið sendi frá sér í morgun, en Morgunblaðið fjallaði í gær um grein þriggja vísindamanna sem birt var í veftímaritinu Icelandic Agricultural Sciences. Þar er því er haldið fram að sníkjudýr hafi borist með innfluttum hundum og köttum í íslenska dýrastofna.

Segir í yfirlýsingu HRFÍ að engar tilraunir séu gerðar til að sanna eða afsanna tilgátur vísindamannanna um nauðsyn langrar einangrunar og rökin sem fram komi standist ekki. „Við höfum ekki fengið nein gögn sem styðja að fjögurra vikna einangrun sé nauðsynleg né að hún bæti nokkru við þær bólusetningar, rannsóknir og meðferð sem dýrin þurfa að undirgangast áður en þau fá að koma inn í landið,“ segir í yfirlýsingunni.

HRFÍ hafi í september á síðasta ári óskað eftir nýju áhættumati varðandi einangrun innfluttra hunda og katta. „Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi landbúnaðarráðherra, hafði milligöngu um að fá dr. Preben Willeberger dýralækni til að framkvæma matið og skyldi [hann] ljúka vinnunni um miðjan apríl 2018. Ekkert hefur frést af matinu þrátt fyrir ítrekaðar eftirleitanir af hálfu HRFÍ“.

Engin tilraun til að sanna eða afsanna tilgátuna

Á sama tíma skjóti hins vegar upp kollinum umfjöllun í fjölmiðlum um nauðsyn einangrunar. „Nýlega var birt yfirlitsgrein í Búvísindum sem fjölmiðlar kjósa að gera sér mat úr. Í yfirlitinu eru settar fram nokkrar hugmyndir um mögulegar ástæður áður ógreindra sníkjudýra hér á landi, getið er um ferðamenn og farangur en einnig eru talin til innflutt gæludýr.“

Í því yfirliti sé horft til 26 ára sögu einangrunar, vitnað til samtala við dýralækna og minnis þeirra og á þeim grunni sé sett fram sú tilgáta að sníkjudýr hafi borist með gæludýrum sem sætt hafa einangrun og hún talin styrkja rök um nauðsyn fjögurra vikna einangrunar þeirra við komu til landsins. Engin tilraun sé hins vegar gerð til að sanna tilgátuna né afsanna, leita annarra mögulegra skýringa eða bera hana saman við aðrar mögulegar lausnir. 

Uppfyllir ekki kröfur um velferð dýra

„HRFÍ telur þau rök sem fram hafa komið um lengd einangrunar gæludýra ekki standast! Við höfum ekki fengið nein gögn sem styðja að fjögurra vikna einangrun sé nauðsynleg né að hún bæti nokkru við þær bólusetningar, rannsóknir og meðferð sem dýrin þurfa að undirgangast áður en þau fá að koma inn í landið. HRFÍ bendir einnig á að skilyrði þetta uppfyllir ekki kröfur um velferð dýra hér á landi. Þess má geta til samanburðar að í Ástralíu og á Nýja-Sjálandi er einangrun gæludýra 10 dagar. Nokkurra ára reynsla þar í landi hefur reynst vel, þar er gerður greinarmunur hvaðan gæludýr eru flutt inn enda áhættan misjöfn. Þar eru líka leyfðar heimsóknir meðan á einangrunarvistun stendur til að tryggja velferð dýranna meðan einangrun varir,“ segir í yfirlýsingunni.

Kallar HRFÍ eftir niðurstöðum áhættumatsins og í framhaldi af því endurskoðun á reglum um einangrun gæludýra. Þá er gerð krafa um að aðrar smitvarnir en innilokun dýra séu nýttar, séu þær í boði og að einangrunarvist sé sé ekki höfð lengri en nauðsyn krefur. Vistunin sé enn fremur gerð dýrunum „eins bærileg og hægt er með velferð þeirra að leiðarljósi“. 

mbl.is