Minna fólk kalli ekki á minni menntun

mbl.is/​Hari

Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, segir áríðandi að sveitarfélög veiti starfsfólki leikskóla sem leggur stund á leikskólakennarafræði launað leyfi að einhverjum hluta á meðan það sinnir námi sínu. Nokkur sveitarfélög hafa nú þegar tekið það upp.

„Það er mjög mikilvægt að gera slíkt því langflestir sem fara í nám í leikskólafræðum starfa nú þegar í leikskóla.“

Kjarasamningar leikskólakennara losna í lok júní á næsta ári. Ekki hefur komið til tals að koma að ákvæði sem lýtur að launuðu fríi nema í næstu kjarasamningum, samkvæmt Haraldi.

„Við höfum ekki rætt það neitt sérstaklega en sveitarfélögin eiga að taka höndum saman og gefa sínu starfsfólki rými. Lausnin á mannekluvandanum er fyrst og fremst fjölgun leikskólakennara. Það er framtíðarlausnin vegna þess að starfsmannavelta leikskólakennara er miklu minni en annarra starfsmanna í leikskólum.“

Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara.
Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Haraldur segir að nú þegar séu þau hjá Félagi leikskólakennara farin að leggja grunninn að kjarasamningunum.

„Við munum krefjast þess að laun verði samkeppnisfær við aðra sérfræðinga, við þurfum að auka rými fyrir börn og fækka þeim á hvern starfsmann, við þurfum að fjölga undirbúningstímum og færa starfsumhverfið nær því sem þekkist á öðrum skólastigum hvað varðar vinnutíma og starfstíma. Til dæmis í tengslum við styttri vinnuviku.“

Hann bend­ir þó á að grunnfor­senda þess að leysa þann mönnunarvanda sem margir leikskólar hérlendis standa frammi fyrir sé að nóg af fólki mennti sig í leik­skóla­kenn­ara­fræðum. „Það er lang­tíma­verk­efni okk­ar og sam­fé­lags­ins alls.“

Í vor bárust Háskóla Íslands 60% fleiri umsóknir um nám í leikskólakennarafræðum en árið áður. Mbl.is fjallaði um það fyrir tæpu ári að mikið brotfall hafi orðið úr meistaranámi í leikskólakennarafræðum síðustu ár. Haraldur segir að þó sé mikilvægt að námið sé fimm ár, en ekki þrjú eins og áður var.

„Þú þarft ekki minni menntun til að kenna minna fólki. Við vissum að tímabundið myndi þetta valda öllum skólagerðum vandamálum en nú eru jákvæð teikn á lofti sem sést meðal annars á stóraukinni aðsókn í leikskólakennarafræði í Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert