Reykur frá PCC Bakka vegna bilunar

Hér má sjá reykinn sem lagði frá verksmiðjunni í gær.
Hér má sjá reykinn sem lagði frá verksmiðjunni í gær. Ljósmynd/Aðsend

Mikinn reyk lagði frá kísilveri PCC Bakka við Húsavík um sexleytið í gærkvöldi. Að sögn Hafsteins Viktorssonar, forstjóra verksmiðjunnar, opnuðust neyðarskorsteinar vegna bilunar í tölvukerfi.

Þeim var lokað aftur nokkrum mínútum síðar.

„Loftgæðin fóru ekki út fyrir nein viðmiðunarmörk á þessum tíma, þannig að þetta hafði sáralítil áhrif,“ segir Hafsteinn.

Verið er að rannsaka hvers vegna bilunin varð í tölvukerfinu en reykurinn steig upp vegna þess að hann fór ekki í gegnum reykhreinsivirki.

Reykurinn fer ekki í gegnum reykhreinsivirki ef eitthvað fer úrskeiðis og stígur hann þá upp í nokkrar mínútur, eða þar til slökkt er strax á ofninum eða gripið til annarra ráðstafana. Ekki þurfti að slökkva á ofninum í gærkvöldi vegna þess að eingöngu var um villumeldingu í tölvunni að ræða.

Atvikið hafði engin áhrif á framleiðslu í verksmiðjunni.

Spurður hvort þetta hafi komið fyrir áður segir Hafsteinn að þetta hafi gerst einstaka sinnum og muni koma fyrir aftur.

Hafsteinn segir reykinn hafa stigið upp hátt yfir verksmiðjunni og því verið vel sjáanlegur en hann hafi ekki lagst yfir bæinn.

Kísilver PCC Bakka við Húsavík.
Kísilver PCC Bakka við Húsavík. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert