Sagði myndavél setta upp vegna morðhótana

Kvartandi sagðist upplifa sig undir stöðugu eftirliti.
Kvartandi sagðist upplifa sig undir stöðugu eftirliti. mbl.is/Eggert

Persónuvernd hefur úrskurðað að rafræn vöktun með eftirlitsmyndavél við ónafngreindan bæ samrýmist ekki lögum og er þeim tilmælum beint til ábyrgðaraðila að breyta staðsetningu og sjónarhorni myndavélarinnar þannig að hún vísi ekki að svæðum á almannafæri eða eignum nágranna. Vélin mun vera staðsett á hárri stöng á bænum, en hún er með aðdráttarlinsu og snýst 360 gráður.

Það var nágranni ábyrgðaraðila sem kvartaði undan myndavélinni. Sagði hana beinast að húsi sínu og í allar áttir þar sem hann og fjölskylda hans ferðuðust um land sitt. Taldi hann vöktunina gróft inngrip í friðhelgi einkalífs síns og fleira fólks á svæðinu.

Ábyrðaraðili segir hins vegar í bréfi sínu til Persónuverndar að nauðsynlegt hafi verið að setja upp eftirlitsmyndavél til að gæta að persónulegu öryggi og verja eigur. Tilgangurinn með myndavélinni hafi verið tvíþættur, annars vegar að verja heimilið gegn innbrotum, þar sem það væri berskjaldað og fjarri byggð, og til að verja eigur og heimilisfólk gegn áreiti nágrannanna. Þau hafi um langt skeið óttast um eigið öryggi og eigna sinna. Hafi þau gripið til þess ráðs að koma upp rafrænum vöktunarbúnaði í kjölfar morðhótunar sem hafi verið kærð til lögreglu, skemmda á eignum og landi.

Í bréfinu kemur jafnframt fram að á myndavélinni hafi verið skyggt fyrir íbúðarhús og nærumhverfi íbúa.

Í athugasemdum nágrannans sem lagði fram kvörtun segir að ábyrgðaraðili myndavélarinnar sé að reyna að koma höggi á hann og konu hans. Um sé að ræða meiðyrði af verstu gerð. Samskiptum nágrannanna er lýst og tekur kvartandi fram að hann hafi ekki kært nágranna sinn þrátt fyrir að ærin ástæða hafi verið til. Sagðist hann upplifa sig undir stöðugu eftirliti þrátt fyrir að um einhverjar skyggingar væri að ræða.

Persónuvernd tekur fram í úrskurði sínum að ágreiningur kvartanda og ábyrgðaraðila falli ekki undir valdsvið Persónuverndar. Eingöngu verði tekin afstaða til rafrænnar vöktunar ábyrgðaraðila.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert