4 milljarða samningur um framkvæmdir við Keflavíkurflugvöll

Rammasamningur um hönnun og ráðgjöf vegna fyrirhugaðra framkvæmda á Keflavíkurflugvelli …
Rammasamningur um hönnun og ráðgjöf vegna fyrirhugaðra framkvæmda á Keflavíkurflugvelli var undirritaður í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ í dag. Þegar framkvæmdum er lokið verður upphafleg flugstöð með rauða þakið aðeins lítill hluti byggingamagnsins. Mynd/Isavia

Fulltrúar Isavia og 12 verkfræði- og arkitektastofa, bæði innlendra og erlendra, undirrituðu rammasamning um hönnun og ráðgjöf vegna fyrirhugaðra framkvæmda á Keflavíkurflugvelli í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ í dag. Áætluð verðmæti samningsins eru tveir til fjórir milljarðar og nær samningurinn til hugmyndavinnu, hönnunar og ráðgjafar vegna mannvirkja á skipulagssvæði Keflavíkurflugvallar.

Fyrirhugaðar framkvæmdir fela í sér breytingar á flugstöðinni, nýbyggingar á flugvallarsvæðinu og endurskipulagningu eða endurhönnun núverandi bygginga á svæðinu.

Samningurinn, sem er til þriggja ára, var boðinn út á grundvelli laga um opinber innkaup og byggja niðurstöðurnar á hæfi og verði, að því er segir í tilkynningu til fjölmiðla.

Miklar framkvæmdir

Til stendur að fara í miklar framkvæmdir á næstu árum, en áætlanir Isavia gera ráð fyrir að á árunum 2012-2021 verði búið að byggja um 60 þúsund fermetra og verða fjarstæði flugvéla á stærð við 22,5 fótboltavelli.

Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi segir í samtali við mbl.is að ekki allt sé komið á hreint með tímasetningar ýmissa framkvæmda, enda ljóst að talsvert sé af verkefnum eftir þangað til að allt verði komið í framkvæmd. „Það er ekki allt meitlað í stein.“

Gert er ráð fyrir tveimur fösum framkvæmda. „Byggingar í fyrsta fasa verða teknar í notkun í áföngum á árunum 2019-21 gangi áætlanir eftir. Gert er ráð fyrir að annar fasi þ.e.a.s. austurfingur og ný norðurbygging verði opnuð í áföngum 5-7 árum eftir að hönnun hefst,“ segir á heimasíðu Isavia.

Í fyrsta fasa verður norðurbygging stækkuð til austurs og suðurs, jafnframt verður landgangur stækkaður til norðurs. Í öðrum fasa verður nýr landgangur til austurs og frekari stækkun norðurbyggingu, að þessu sinni til norðurs.

Kjallari stækkunar norðurbyggingar til austurs mun hugsanlega hýsa farangursskimun.
Kjallari stækkunar norðurbyggingar til austurs mun hugsanlega hýsa farangursskimun. Mynd/Isavia
Þá verður landgangurinn stækkaður til norðurs.
Þá verður landgangurinn stækkaður til norðurs. Mynd/Isavia

Talsverð fjölgun farþega á árinu

Skiptifarþegar eru um 41% allra farþega sem fara um Keflavíkurflugvöll og gerir uppfærð farþegaspá Isavia ráð fyrir að skiptifarþegum sem millilenda á Keflavíkurflugvelli fjölgi um 37% á árinu. Upphafleg spá fyrir 2018 frá nóvember 2017 gerði ráð fyrir um 30% fjölgun. Hins vegar hefur erlendum komufarþegum fjölgað minna á árinu en gert var ráð fyrir.

Þá voru flugfélögin sem flugu til Íslands í sumar 28 talsins og voru áfangastaðir 100.

Spurður hvort umfangsmiklar framkvæmdir á flugvallarsvæðinu muni hafa áhrif á starfsemi flugvallarins, segir Guðjón að framkvæmdir af þessu tagi kalli á mikla skipulagningu. „Við vinnum með þeim hætti að það sem við erum að framkvæma valdi sem minnstu raski, en upplýsingar um allt slíkt verða kynntar tímanlega og við eigum eftir að skoða þessa þætti þegar nær dregur,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert