Kvennaáhöfn á Rósinni hitti fyrir höfrungatorfu

„Það kemur fyrir reglulega að við hittum fyrir höfrunga en það óvenjulega við þennan atburð í morgun var hvað þeir voru margir. Þetta var höfrungatorfa, örugglega 30-40 höfrungar,“ segir Sigríður Ólafsdóttir, skipstjóri á hvalaskoðunarbátnum Rósinni, í samtali við mbl.is.

Í hvalaskoðunarferð í morgun var áhöfnin einungis skipuð konum sem hlýtur að teljast sjaldgæfur atburður.

„Það er óvenjulegt að það raðist svona niður. Að skipstjórnar- og vélstjórnarfólk auk leiðsögumanna sé allt konur. Það er örugglega í fyrsta skipti sem þar gerist hérna heima í svona atvinnusiglingum,“ segir Sigríður.

Það sem gerði túrinn enn eftirminnilegri var að stór höfrungatorfa fylgdi bátnum eftir langa leið og sýndi mögnuð tilþrif eins og sést í myndskeiðinu sem Vera Sölvadóttir tók.

„Þetta var rosa flott sýning þarna í morgun, alveg æðislegt að sjá svona. Það koma nú oft 3-5 höfrungar en það er sjaldan að við fáum svona risatorfu sem eltir okkur á röndum,“ bætir Sigríður við.

Frá vinstri: Sara Rodriguez Ramallo leiðsögumaður, Sigríður Ólafsdóttir, skip- og …
Frá vinstri: Sara Rodriguez Ramallo leiðsögumaður, Sigríður Ólafsdóttir, skip- og vélstjóri, og Vera Sölvadóttir, háseti og leiðsögumaður. Ljósmynd/Magnús Kr. Guðmundsson

Var bæði skipstjóri og vélstjóri

Áhöfnin á Rósinni er að jafnaði skipuð 3-4 einstaklingum, þ.e. skipstjóra, vélstjóra og háseta auk leiðsögumanna. Rósin er ekki nema tæplega 20 metrar á lengd og því er leyfilegt að sami einstaklingur sé bæði í hlutverki skipstjóra og vélstjóra. Sigríður er með tilskilin réttindi og sinnti því báðum hlutverkum í dag. Með henni voru þær Vera Sölvadóttir sem var háseti í dag og Sara Rodriguez Ramallo leiðsögumaður.

Rósin.
Rósin. Ljósmynd/Aðsend

Sigríður er þaulvön þegar kemur að siglingum þar sem hún hefur siglt og kennt á skútur í fjölda ára. Hún segir skipstjórastarfið vera fjölbreytt og áþreifanlegt. Það er þó tvennt ólíkt að sigla skútu og báti eins og Rósinni segir hún.

„Þetta eru ólíkir heimar. Það er eitt að vera á skútu og að leika sér með félögum eða fjölskyldu og annað að vera með stóran hóp og bera ábyrgð á honum. Það er ofsalega áþreifanleg vinna að vera úti á sjó, að kljást við náttúruöflin og klára ferðir svo sómi sé að,“ segir hún að lokum.

Höfrungatorfan sem fylgdi Rósinni í dag taldi 30-40 höfrunga að …
Höfrungatorfan sem fylgdi Rósinni í dag taldi 30-40 höfrunga að mati Sigríðar. Ljósmynd/Magnús Kr. Guðmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert