Steinbryggja verði sýnileg

Steinbryggjan varð sýnileg nýlega vegna endurbóta við Tryggvagötu.
Steinbryggjan varð sýnileg nýlega vegna endurbóta við Tryggvagötu. mbl.is/Sisi

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins ætla í dag að leggja fram tillögu í borgarráði Reykjavíkur þess efnis að ekki verði mokað yfir steinbryggjuna sem kom í ljós við framkvæmdir í Tryggvagötu. Um merkar menningarminjar sé að ræða sem ættu að vera sýnilegar.

„Steinbryggjan er eitt þekktasta mannvirki Reykjavíkurhafnar og var hliðið að Reykjavík,“ segir í greinargerð með tillögunni.

Rætur hennar liggi í gömlu Bæjarbryggjunni, frá 1884, en núverandi gerð Steinbryggjunnar sé í grunninn frá því um 1905, en endurbætur á yfirborði hennar voru unnar um 1916. Þessar merku menningarminjar fóru undir landfyllingu árið 1940 og komu nýverið í ljós við framkvæmdir við Tryggvagötu. Fornleifafræðingar frá Fornleifastofnun Íslands hafi haft eftirlit með framkvæmdum þar sem staðsetning Steinbryggjunnar var kunn en ekki vitað um ástand hennar.

„Komið er í ljós að ástand Steinbryggjunnar er gott og að stéttin og hleðslan sé afar vönduð. Að beiðni Minjastofnunar verður ekki mokað yfir þá hluta Steinbryggjunnar sem nú hefur verið grafið ofan af. Með þá staðreynd í huga er vert að huga að því hvort hægt verði að gera bryggjuna sýnilega og hvernig útfærsla og hönnun svæðisins gæti litið út án þess að mikill kostnaður hljótist af fyrir borgina. Ljóst er að sýnileiki Steinbryggjunnar myndi hafa mikið gildi fyrir hafnarsvæðið,“ segir í greinargerðinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert