Segist ekki brjóta lög með synjun

Heilbrigðisráðherra segir ákvörðunina ekki ýta undir tvöfalt heilbrigðiskerfi.
Heilbrigðisráðherra segir ákvörðunina ekki ýta undir tvöfalt heilbrigðiskerfi. mbl.is/Ómar

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra vísar því á bug að hún sé að brjóta lög með því að synja taugalækni um samning við Sjúkratryggingar Íslands og þar með niðurgreiðslur til sjúklinga. Þetta kemur fram í frétt RÚV. Svandís segir þessa ákvörðun ekki ýta undir tvöfalt heilbrigðiskerfi.

Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, sagði í samtali við RÚV í gær að með þessu væri verið að mismuna sjúklingum. Sagðist hann telja það á skjön við lög og reglur að hafna því að taka þátt í kostnaði sjúklinga.

Anna Björnsdóttir er taugalæknirinn sem um ræðir, en hún er sérfræðingur í göngudeildarþjónustu við parkinson-sjúklinga. Anna opnaði stofu í gær þrátt fyrir að hafa verið neitað um samning og þurfa því skjólstæðingar hennar að greiða fullt gjald fyrir þjónustuna. Það eru hins vegar ekki allir sem hafa efni á því og í samtali við RÚV í gær sagði Anna að sér hefðu nú þegar borist tilvísanir fyrir öryrkja sem ekki gætu þegið tíma vegna kostnaðarins.

Steingrímur Ari segir verið að mismuna sjúklingum.
Steingrímur Ari segir verið að mismuna sjúklingum. mbl.is

Sjúkratryggingar vildu endurskoða ákvörðun sína um að synja Önnu um aðild að rammasamningnum. Rökin voru meðal annars þau að í skýrslu Landlæknisembættisins í sumar kom fram að biðtími parkinson-sjúklinga væri óviðunandi og að kostnaðurinn væri innan fjárheimilda.

Svandís segir málið snúast um að opinbera heilbrigðiskerfið hafi glímt við fjárskort undanfarin ár á meðan samningar við sérfræðilækna hafi verið eins og „opinn krani“ fjárveitinga.

„Við náum ekki yfirsýn með því að ræða mál eins sérfræðings í einni sérgrein heldur þurfum við að ná utan um stefnumótun fyrir heilbrigðiskerfið allt og það er það sem við erum að gera,“ sagði Svandís.

Málið yrði ekki leyst með því að opna eina stofu í Reykjavík heldur með því að efla heilsugæsluhlutann alls staðar þannig að þjónustan væri aðgengileg um allt land. Það þyrfti að jafna framboð á þjónustunni. Sums staðar væri of mikið af komum og of mikið af lækningum á meðan annars staðar hlæðust upp biðlistar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert