Afrískur augnsjúkdómur á Íslandi

Kona greindi lifandi orm í auganu á sér sem náðist …
Kona greindi lifandi orm í auganu á sér sem náðist þó ekki. mbl.is/Golli

Tvö tilfelli þar sem svonefndur Loa loa-ormur hefur verið í auga sjúklings hafa greinst á Landspítalanum á síðustu misserum. Frá þessu er greint í nýjasta hefti Læknablaðsins. Í báðum tilvikum áttu í hlut konur sem höfðu verið á ferð í Afríku, og önnur þeirra var raunar fædd þar en búsett hér á landi. Saga hennar er í stuttu máli sú að hún greindi fyrirbæri sem hreyfðist eftir yfirborði augans og sást með berum augum. Við nánari skoðun sást að þetta var lifandi ormur sem náðist þó ekki.

Í hinu tilvikinu var um að ræða íslenska konu sem hafði verið á ferð í Afríku. Heimkomin leitaði hún á Landspítala vegna gruns um orm undir slímhúð hægra auga, en í Afríku hafði hún sýkst af hornhimnubólgu af völdum svepps svo og malaríu. Á sjúkrahúsinu fór konan í aðgerð og þar var klippt op á slímhúð augans svo ormurinn náðist.

Að rannsóknum loknum voru sjúklingar tveir meðhöndlaðir með sýkladrepandi og bólgueyðandi augndropum. Síðarnefnda konan var einkennalaus í sjö mánuði eftir lok meðferðar en hafði þá aftur samband vegna gruns um lifandi orm undir húð á handlegg. Lyfjameðferð vann á því svo og því þegar konan greindist með sýkingu af völdum þráðorms.

Umrædd tilvik eru þau fyrstu þar sem hinn afríski augnsjúkdómur lóasýki greinist hér á landi. „Með vaxandi fjölda innflytjenda og innlendra og erlendra ferðamanna frá fjarlægum slóðum er viðbúið að framandi sýkingar taki að reka á fjörur íslenskra lækna,“ segir í Læknablaðinu. Lóasníkillinn er þráðormur sem berst í fólk með biti dádýraflugu og er landlægur víða í Vestur- og Mið-Afríku. Er talið að þar séu 10 milljónir manna sýktar en 30 milljónir útsettar fyrir sníkilinn og vangreining heilbrigðisstarfsfólks algeng.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert