Rúm 23 tonn af rusli á Patterson-flugvelli

23,3 tonn af rusli verða send til förgunar. Aðallega var …
23,3 tonn af rusli verða send til förgunar. Aðallega var um búslóðir að ræða. Ljósmynd/Kadeco

„Kadeco hefur látið hreinsa Patterson-flugvöll undanfarin ár. Ruslið hefur safnast gríðarlega hratt upp undanfarna mánuði og þetta er það langmesta sem við höfum séð. Ég er ótrúlega hissa á þessu magni,“ segir Ísak Ernir Kristinsson, stjórnarformaður Kadeco.

Hann greinir frá því á facebooksíðu sinni að 23,3 tonn af rusli hafi verið hreinsuð í kringum skotfærageymslur á Patterson-flugvellinum sem bandaríski herinn skildi eftir sig eftir seinni heimsstyrjöld.

Ísak Ernir Kristinsson, stjórnarformaður Kadeco.
Ísak Ernir Kristinsson, stjórnarformaður Kadeco. Ljósmynd/Aðsend

Átján mánuðir eru síðan svæðið var síðast hreinsað, en Ísak segir miður að það sé eins og fólki finnist auðveldara að henda þarna rusli þegar töluvert er af rusli fyrir. „Eins fáránlegt og það er.“

„Eins og ég nefni í facebookfærslunni þá hefur Kalka verið gagnrýnd,“ segir Ísak, en Kalka er sorpeyðingarstöð Suðurnesja. „Það er lokað á sunnudögum og opið í örfáa klukkutíma eftir hádegi á laugardegi. Margir vilja verja seinni parti laugardags og sunnudegi með fjölskyldunni en eru til í að brasa fyrir hádegi á laugardegi og seinni part sunnudags.

Þó ég ætli ekki að leggja mat á það hvort þetta sé einungis þessu um að kenna þá er mín skoðun sú að þessi þjónusta sé ekki drifin áfram þörfum viðskiptavinarins. Ég skora á stjórn Kölku að taka þetta til endurskoðunar.“

Körfuboltadeildir Keflavíkur og Njarðvíkur tóku þátt í fjáröflun.
Körfuboltadeildir Keflavíkur og Njarðvíkur tóku þátt í fjáröflun. Ljósmynd/Kadeco

Ísak segir gríðarlega kostnaðarsamt fyrir Kadeco að sjá um hreinsun á slíku magni af rusli, en körfuboltadeildir Keflavíkur og Njarðvíkur voru fengnar til þess að hreinsa svæðið sem fjáröflun. „Svo stöndum við auðvitað straum af kostnaði við förgun á ruslinu sem verður gríðarlegur.“

Meðal þess rusls sem fólk hafði losað sig við á svæðinu voru heilu búslóðirnar, auk nokkurra bíla sem búið var að kveikja í. Ísak er hissa á ósvífninni í fólki. „Fólk sem er í endurbótum heima hjá sér, að kaupa parket eða nýja búslóð, ákveður að spara sér aurinn með því að henda þessu á víðavangi. Þetta er bara subbulegt. Ég held að það sé eitthvað mikið að í okkar umhverfisvitund ef þetta þykir eðlilegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert