„Svíþjóð mun ekki breytast“

Håkan Juholt sendiherra Sviþjóðar.
Håkan Juholt sendiherra Sviþjóðar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Svíþjóð er eitt auðugasta land í heimi og staðan þar er mjög sterk núna. Í Svíþjóð ríkir mikil hefð samvinnustjórnmála og þess að setja ágreining til hliðar svo hægt sé að setja framtíðarhagsmuni Svíþjóðar í forgang. Ég er sannfærður um að niðurstaða þessara kosninga muni gera okkur kleift að halda því áfram,“ segir Håkan Juholt, sendiherra Svíþjóðar á Íslandi, í samtali við mbl.is.

Auðmjúkur yfir áhuga Íslendinga

Nú eru hátt í 300 manns staddir á kosningavöku í sendiráðinu og er Håkan gríðarlega ánægður með mætinguna og áhuga Íslendinga á kosningunum í Svíþjóð.

„Ég er dolfallinn og auðmjúkur yfir þeim mikla áhuga sem Íslendingar hafa á stöðunni í Svíþjóð. Stemningin hér er gríðarlega góð. Við höfum átt skype-samtöl við öfluga stjórnmálamenn í Stokkhólmi, fulltrúa allra flokka, og gestir mínir hafa getað spurt þá spurninga og spjallað við þá um stjórnmálin,“ segir Håkan.

Fjölmargir eru á kosningavöku í sænska sendiráðinu.
Fjölmargir eru á kosningavöku í sænska sendiráðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Getur ekki útskýrt fylgisaukningu Svíþjóðardemókrata

Samkvæmt fyrstu tölum er flokkur Håkans, Sósíaldemókrataflokkurinn, stærsti flokkurinn í Svíþjóð með 28,3%, Moderatflokkurinn er með 19,8% og Svíþjóðardemókratar 17,7%.

Það þýðir að þrátt fyrir að mælast stærstur þá er Sósíaldemókrataflokkurinn að bíða sitt mesta afhroð í sögunni og Svíþjóðardemókrataflokkurinn, sem hefur verið gagnrýndur fyrir öfgahægristefnu, er að ná sínu mesta fylgi síðan hann var stofnaður.

„Það er ekki spurning að Svíþjóðardemókratar eru að bæta við sig miklu fylgi en það er undir öðrum komið að útskýra það. Mögulega er það vegna alþjóðavæðingar, mögulega vegna samfélagsmiðla þar sem hatri og lygum er dreift víða, mögulega vegna skorts á trausti til kerfisins og lýðræðislegra stofnana. Ég veit það ekki en þrátt fyrir að þeir séu að bæta við sig miklu fylgi þá eru rúmlega 80% Svía sem styðja ekki stefnu þeirra,“ segir Håkan.

Meiri þörf fyrir samvinnu

Håkan segist ekki hafa hugmynd um það hvernig næsta ríkisstjórn muni líta út en telur að hefð samvinnustjórnmála muni halda áfram eftir þessar kosningar.

„Nú er jafnvel enn meiri þörf fyrir samvinnu en áður þegar einn flokkur mælist langstærstur. Hefð samvinnu mun áfram ríkja og Svíþjóð verður áfram velferðarríki með áherslu á jafnrétti. Svíþjóð mun ekki breytast eftir þessar kosningar,“ segir hann að lokum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er meðal gesta á kosningavökunni.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er meðal gesta á kosningavökunni. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert