Sólargeislarnir flestir fyrir sunnan

Veðurútlit á hádegi í dag, miðvikudag.
Veðurútlit á hádegi í dag, miðvikudag.

Vindur verður með allra hægasta móti í dag, en hæg breytileg átt verður um allt land. Enn er nóg eftir af skýjum gærdagsins yfir landinu, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings og má því búast við smáskúrum á víð og dreif. Hiti verður á bilinu 7 til 12 stig.

Er líður á daginn ætti sólin hins vegar að ná að gægjast eitthvað í gegnum skýin og eru íbúar á Suðurlandi og Suðausturlandi líklegastir til að hreppa flesta sólargeislana. 

Á morgun gengur síðan í norðanátt, 5-10 m/s, og henni fylgir súld eða rigning á norðanverðu landinu og svalt loft. Hiti verður undir 10 stigum og væntanlega gránar eitthvað í hærri fjöllum. Sunnanlands má hins vegar búast við bjartviðri og allt að 13 stiga hita. 

Á föstudag er svo útlit fyrir að norðanáttin haldi áfram og verði þá orðin eitthvað ákveðnari, 8-13 m/s. Einnig bætir í úrkomuna norðanlands og er útlit fyrir talsverða rigningu frá Tröllaskaga og austur á Vopnafjörð.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert