Verði að flytja fréttir fyrir almenning

Lilja leggur áherslu á að ferlið verði gagnsætt.
Lilja leggur áherslu á að ferlið verði gagnsætt. mbl.is/Eggert

„Við höfum verið að móta skilyrðin og gera drög að frumvarpi sem verður sett í opið samráð í nóvember,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, um áform sem hún kynnti í gær í tengslum við endurgreiðslu á hluta ritstjórnarkostnaðar einkarekinna fjölmiðla.

Lilja leggur áherslu á að ferlið verði gagnsætt og muni að einhverju leyti líkjast því endurgreiðslukerfi sem er í gildi í tengslum við kvikmyndagerð, og bókaútgáfu von bráðar. Í greinargerð Fjölmiðlanefndar sem unnin var fyrir ráðuneytið er t.d. lagt fram að til að fjölmiðill eigi rétt á endurgreiðslu verði markmið hans að vera að flytja fréttir eða fréttatengt efni, að hann sé fyrir allan almenning á Íslandi, að prentað efni þurfi að hafa ákveðna útgáfudaga og að fjöldi þeirra þurfi að vera ákveðið margir.

„Fjölmiðill þarf að vera skráður, hafa leyfi frá Fjölmiðlanefnd, það yrðu kröfur um gagnsætt eignarhald og svo framvegis,“ útskýrir Lilja.

Áætlaður kostnaður við endurgreiðslu ritstjórnarkostnaðar eru 350 milljónir á ári, og horft er til þess að endurgreiðslurnar nemi 20-25% af ritsjórnarkostnaði.

Í öðrum lið aðgerða sem mennta- og menningarmálaráðuneytið ætlar að hrinda af stað til stuðnings einkarekinna fjölmiðla er skattlagning á kaup á erlendum netauglýsingum.

„Allar hugmyndir sem lúta að því að ná utan um hið stafræna hagkerfi eru á hálfgerðu mótunarstigi, en við verðum að ná utan um þetta,“ segir Lilja, og að meðal annars verði horft til nágrannaþjóða eins og Danmerkur, þar sem þessi vinna er komin langt á veg, við útfærslu þessarar aðgerðar.

„Við þurfum bæði að reiða okkur á fyrirtækin og að geta fylgst með þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert