Ríkið endurgreiði ritstjórnarkostnað

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra á fundinum.
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra á fundinum. mbl.is/Eggert

Ríkisstjórnin ætlar að endurgreiða einkareknum fjölmiðlum hluta ritstjórnarkostnaðar og draga úr umsvifum Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, mun leggja fram frumvarp í upphafi næsta árs  um þetta efni og verði það samþykkt mun ríkið hefja endurgreiðslur til einkarekinna fjölmiðla árið 2019.

Samkvæmt því sem Lilja sagði á blaðamannafundi í Veröld – húsi Vigdísar rétt í þessu er horft til þess að stuðningur ríkisins við einkarekna fjölmiðla nemi 400 milljónum króna á ári. Þetta er í fyrsta sinn sem stjórnvöld hér á landi grípa til beinna aðgerða til að styðja við rekstur einkarekinna fjölmiðla.

Horft er til þess að endurgreiðslur ríkisins vegna ritstjórnarkostnaðar einkarekinna fjölmiðla nemi 20-25% af ritstjórnarkostnaði, segir Lilja, sem er vongóð um að þessar aðgerðir muni valda „straumhvörfum“ á íslenskum fjölmiðlamarkaði. 

Þá segist ráðherra horfa til þess að Ríkisútvarpið dragi úr þátttöku sinni á auglýsingamarkaði um sem nemur 560 milljónum króna á ári. Horft er til þess að Ríkisútvarpið hætti alfarið með kostaða dagskrárliði og að auglýsingamínútum á hverjum klukkutíma verði fækkað, úr átta í sex.

Þessu er ætlað að skapa aukið rými til tekjuöflunar fyrir einkaaðila á fjölmiðlamarkaði. 

Einnig er horft til þess að lækka virðisaukaskatt á rafrænar fjölmiðlaáskriftir úr 24% niður í 11% og samræma skattlagningu á auglýsingum, svo íslenskir fjölmiðlar standi jafnfætis erlendum netmiðlum.

Þá er stefnt að auknu gagnsæi varðandi kaup opinberra aðila á auglýsingum, til dæmis með notkun vefsins opnirreikningar.is eða með skilum á árlegri skýrslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert