Sterkara en menn áttuðu sig á

„Við fylgjumst með eins og aðrir hver verða næstu skref því að Ísal er fyrirtæki sem hefur mikla þýðingu fyrir íslenskt efnahagslíf,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, innt eftir viðbrögðum við riftun á kaupsamningi Norsk Hydro á öllu útgefnu hlutafé í álverinu í Straumsvík af Rio Tinto. 

Upphaflega var búist við því að kaupferlinu yrði lokið á öðrum ársfjórðungi, en í tilkynningu frá Norsk Hydro í síðustu viku kom fram að það hefði tekið lengri tíma en talið var að fá samþykki samkeppnisyfirvalda framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Í kjölfarið hafi verið farið fram á riftun tilboðsins og sú beiðni verið samþykkt. 

Ekki vegna veikleika hjá Ísal

„Áhugi Hydro var til marks um styrk fyrirtækisins. Nú dettur þetta upp fyrir, ekki af því að sá áhugi hafi neitt breyst heldur vegna annarra óskyldra þátta sem varða samþykki samkeppnisyfirvalda í Evrópu,“ segir Þórdís Kolbrún. 

„Þetta virðist því ekki gerast vegna neinna veikleika hjá fyrirtækinu. Ef eitthvað er, þá bendir þetta kannski til þess að fyrirtækið sé sterkara en menn áttuðu sig á, fyrst það er talið vega svona þungt á Evrópumarkaði að það hafi veruleg áhrif á samkeppnisstöðu aðila,“ segir Þórdís Kolbrún.

Norsk Hydro er skráð á hlutabréfamarkað í Noregi. Stærsti hluthafi félagsins er norska ríkið með um 34% hlut. Félagið er með 35 þúsund starfsmenn í 40 löndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert