Stríðsglæpafrumvarp lagt fram á Alþingi

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra leggur frumvarpið fram.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra leggur frumvarpið fram. mbl.is/Eggert

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hefur lagt fram nýtt frumvarp um refsingar fyrir hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði, en nauðsynlegt var talið að leggja slíkt frumvarp fram vegna alþjóðlegra samninga og sáttmála sem Ísland er aðili að.

Frumvarpið kveður á um, eins og lesa má úr heiti þess, refsingar fyrir ýmsa glæpi sem hingað til hafa ekki komið til kasta íslenskra löggæsluyfirvalda, á borð við hópmorð, þar með talin þjóðarmorð, glæpi gegn mannúð sem framdir eru sem hluti af víðtækri eða kerfisbundinni atlögu að almennum borgurum og stríðsglæpi í vopnuðum átökum, sama hvort þau eru alþjóðlegs eðlis eður ei.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að markmið þess sé tvíþætt. Í fyrsta lagi að fullnægja alþjóðlegum skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist samkvæmt svokölluðum „hópmorðssáttmála“ frá 1948 og Genfarsáttmálanum, sem eru alþjóðleg mannúðarlög sem vernda þá sem ekki taka beinan þátt í ófriði fyrir afleiðingum stríðsátaka, í raun eins konar „leikreglur“ stríðandi fylkinga.

Af Vísindavefnum: Hvað er Genfarsáttmálinn?

Í öðru lagi er markmið sáttmálans sagt vera að tryggja að íslensk stjórnvöld geti nýtt sér fyllingarlögsögu Alþjóðlega sakamáladómstólsins og rannasakað sjálf glæpi sem falla undir lögsögu hans og ákært fyrir þá.

Sérstök nefnd var skipuð til að meta hvort þörf væri á þessum lagabreytingum, en hana skipuðu Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari, Sigurður Tómas Magnússon, prófessor við HR, og Þórdís Ingadóttir, dósent við HR, sem var formaður nefndarinnar. Við gerð frumvarpsins var haft samráð við skrifstofu Alþjóðaráðs Rauða krossins í Genf, landsnefnd um mannúðarrétt, Rauða krossinn á Íslandi og utanríkisráðuneytið.

Frumvarp dómsmálaráðherra á vef Alþingis

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert