Yngsti kærði einstaklingur 4 ára

Hegningarlagabrotum fjölgar á milli ára.
Hegningarlagabrotum fjölgar á milli ára. mbl/Arnþór

Fjöldi grunaðra fyrir hegningarlagabrot árið 2017 voru 4.124 einstaklingar, eða 9 prósent fleiri en meðalfjöldi grunaðra árin 2014 til 2016. Bæði árin 2016 og 2017 voru karlar rétt tæp 80 prósent grunaðra og er það sambærilegt við fyrri ár, þó að árið 2015 hafi hlutfallið verið aðeins lægra eða 77 prósent. Þetta kemur fram í skýrslu ríkislögreglustjóra um grunaða og kærða einstaklinga. Samtals voru hegningarlagabrot 13.609 árið 2017 en 12.770 árið 2016.

Meðalaldur kærðra einstaklinga árið 2017 var 33 ár hjá körlum en 32 ár hjá konum. Elsti einstaklingur sem kærður var á síðasta ári var 89 ára en sá yngsti 4 ára. Í báðum tilfellum var um karlkyns einstaklinga að ræða. Í skýrslunni kemur fram að börn yngri en 15 ára séu oftast aðilar að þjófnaði, eða í 44 prósent tilfella, og svo eignaspjöllum, í 21 prósenti tilfella. Fólk yngra en 60 ára er oftast aðilar að líkamsárásum, eða í 21 prósenti tilfella.

Mynd/Skjáskot úr skýrslu ríkislögreglustjóra

Vert er þó að taka fram að börn undir 15 ára eru ekki sakhæf. Ef málsaðili er barn að aldri er það skráð óháð því hvert framhaldið verður. Sum mál eru t.d. þess eðlis að barnavernd kemur að þeim en önnur þess eðlis að ekkert er aðhafst frekar.

Í skýrslunni má sjá að hlutfallslega var ítrekunartíðni meiri hjá konum árin 2016 og 2017 heldur en fyrri ár en um 30 prósent þeirra braut af sér oftar en einu sinni miðað við um 25 prósent árin þar á undan. Um 15 prósent brutu af sér þrisvar eða oftar bæði árin sem er hærra en fyrri ár.

Flestar konur áttu aðild að auðgunarbrotum árin 2016 og 2017 en hlutfall kvenna af þeim sem sem frömdu auðgunarbrot minnkaði um 11 prósent á milli ára. Flestir karlmenn frömdu fíkniefna- og ofbeldisbrot og fjölgaði brotum í þeim flokkum á milli ára.

Mynd/Skjáskot úr skýrslu ríkislögreglustjóra
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert