Tveir lausir úr gæsluvarðhaldi

Menn grunaðir um rán í Hafnarfirði eru lausir úr gæsluvarðhaldi. …
Menn grunaðir um rán í Hafnarfirði eru lausir úr gæsluvarðhaldi. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tveir karlmenn á þrítugsaldri sem voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald á mánudag vegna ráns í Hafnarfirði eru lausir úr haldi samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði mennina í gæsluvarðhald að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á ráni í fyrirtæki í Hafnarfirði.

Annar mannanna var handtekinn við vettvanginn áður en tilkynning um ránið barst lögreglu. Lögreglumenn við eftirlitsstörf veittu grunsamlegum manni athygli og stöðvuðu för hans. Sá var með fjármuni á sér sem hann gat ekki gert grein fyrir.

Hinn maðurinn var handsamaður á svipuðum slóðum ekki löngu síðar og voru þeir báðir færðir til yfirheyrslu á lögreglustöð.

Gæsluvarðhaldið átti að renna út í dag en mennirnir losnuðu fyrr úr haldi. Landsréttur snéri við gæsluvarðhaldsúrskurði héraðsdóms yfir öðrum manninum og var honum sleppt daginn eftir. Hinum manninum var sleppt í gær eða fyrradag samkvæmt heimildum mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert