Fóstureyðing verði heimil fram að 19. viku

Velferðarráðuneytið hefur birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda drög að …
Velferðarráðuneytið hefur birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi heilbrigðisráðherra til nýrra laga um þungunarrof. mbl.is/Golli

Fóstureyðing verður heimil fram að lokum 18. viku meðgöngu, verði frumvarp um ný heildarlög um þungunarrof samþykkt. Velferðarráðuneytið birti drög að frumvarpinu til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda í dag. Samkvæmt gildandi lögum er þungunarrof heimilt fram að lokum 16. viku.

Lagt er til að ákvæði gildandi laga, um að fóstureyðing skuli ætíð framkvæmd eins fljótt og auðið er og helst fyrir lok 12. viku þungunar, standi áfram í nýjum lögum til að undirstrika mikilvægi þess að þungunarrof skuli framkvæmt eins snemma og mögulegt er.

Þá er lagt til að gerð verði krafa um fræðslu um áhættu samfara aðgerðinni sem og að konu skuli boðið upp á stuðningsviðtal vegna þungunarrofs bæði fyrir og eftir að það er framkvæmt.  

Í drögunum er einnig lagt til að eftir lok 18. viku þungunar verði einungis heimilt að framkvæma þungunarrof ef lífi þungaðrar konu er stefnt í hættu við áframhaldandi þungun eða ef fóstur telst ekki lífvænlegt til frambúðar.

Sjálfsákvörðunarréttur kvenna til þungunarrofs tryggður

Í tilkynningu velferðarráðuneytisins segir að markmið fyrirhugaðrar lagasetningar sé að tryggja að sjálfsforræði kvenna verði virt með öruggum aðgangi að heilbrigðisþjónustu fyrir þær konur sem óska eftir þungunarrofi. Þá segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í færslu á Facebook-síðu sinni að frumvarpið tryggi með skýrum hætti sjálfsákvörðunarrétt kvenna til þungunarrofs.

Hægt verður að senda inn umsögn um frumvarpsdrögin til 4. október.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert