Guðlaugur Þór ræddi við Jeremy Hunt

Jeremy Hunt og Guðlaugur Þór Þórðarson á fundi sínum í …
Jeremy Hunt og Guðlaugur Þór Þórðarson á fundi sínum í morgun. Ljósmynd/Aðsend

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands, ræddu samskipti Íslands og Bretlands og útgöngu Breta úr Evrópusambandinu (Brexit) á fundi sínum í Birmingham í morgun.

„Ég hef átt gott samtal bæði við fyrirrennara hans, Boris Johnson, og aðra sem hafa komið að þessum málum en við höfum ekki náð svona fundi eins og í morgun,“ segir Guðlaugur Þór og nefnir að Bretar líti til þjóða sem hafa sína eigin viðskiptastefnu og stjórna sínum fiskveiðum eins og Íslendingar gera en Bretar hafa ekki stjórnað sínum fiskveiðum og öðrum málum sjálfir vegna aðildar sinnar að ESB.

Staðan enn flókin vegna Brexit

„Það er vilji hjá báðum aðilum að halda áfram góðu og uppbyggilegu samstarfi og samvinnu á milli landanna.“ Guðlaugur segir stöðuna enn vera nokkuð flókna því Bretar hafa ekki formlegt samningsumboð til að fara með slík mál.

„Það eru líka, eins og allir vita, álitaefni á milli Breta og Evrópusambandsins út af Brexit en það hefur verið stefna mín og þeirrar ríkisstjórnar sem ég hef verið í sem utanríkisráðherra að setja Brexit í forgang og sömuleiðis að undirbúa okkur fyrir alla þá kosti sem upp geta komið.“

Hunt er mikill áhugamaður um Ísland

Aðspurður segir Guðlaugur Þór enga áherslubreytingu vera hjá Hunt varðandi samskipti Breta og Íslendinga í ljósi þess að hann tók nýverið við embætti utanríkisráðherra af Johnson. Það sé mjög gott mál en auk þess nefndi Guðlaugur Þór að Hunt sé mikill áhugamaður um Ísland. Hann hafi fylgst vel með sjónvarpsþáttunum Ófærð og séð kvikmyndina The Secret Life of Walter Mitty sem var að hluta til tekin upp hér á landi. Einnig langar hann til þess að koma til Íslands og skoða landið með eigin augum.

Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakklands.
Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakklands. AFP

Hitti franska utanríkisráðherrann

Guðlaugur Þór hefur verið önnum kafinn undanfarið. Hann fór á allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku og fór þaðan til Frakklands þar sem hann hitti m.a. Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakklands, framkvæmdastjóra Efnahags- og framfarastofnunar (OECD) og framkvæmdastjóra Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO).

Fundurinn með Le Drian gekk mjög vel, að sögn Guðlaugs Þórs, en ríkin hafa lagt á það áherslu að efla tvíhliða samskipti. Guðlaugur Þór kveðst einnig hafa í ferð sinni til Frakklands verið í forstöðu viðskiptanefndar á vegum fransk-íslenska verslunarráðsins. Á meðal þess sem ráðherrarnir ræddu voru norðurskautsmálin, loftslags- og umhverfismál og öryggis-, varnar- og björgunarmál. „Það var mjög gott að ná að ræða við ráðherrann og finna áhuga hans á því að efla tvíhliða samskipti landanna.“ Hann bætir því við að áhersla hafi verið lögð á að koma ekki á neinum viðskiptahindrunum í nánustu framtíð í Evrópu, því allir muni tapa á því en Guðlaugur Þór ræddi þau mál einnig við Hunt.

Spurður nánar út í Frakka og björgunarmálin segir hann að eftir því sem umferð aukist á ferð sjófarenda í gegnum norðurskautið kalli það á aukinn viðbúnað. „Þeir hafa áhuga á því sviði. Landhelgisgæslan hefur verið með franskar þyrlur í þjónustu sinni en einnig tengist þetta Atlantshafsbandalaginu og öryggis-, varnar- og björgunarmálum á þessu svæði,“ segir ráðherrann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert