Landsréttur þyngdi dóm í nauðgunarmáli

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hjörtur

Landsréttur þyngdi í dag dóm yfir karlmanni á þrítugsaldri sem fundinn hefur verið sekur um að nauðga ölvaðri konu í júní 2015. Var hann dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi, en í héraði hafði hann verið dæmdur í eins árs fangelsi. Þá hækkaði Landsréttur bætur til handa konunni úr einni milljón í 1,2 milljónir.

Fram kemur í dómi Landsréttar að brot mannsins, Fjölnis Guðsteinssonar, hafi verið til þess fallin að valda konunni miklum miska. Þá liggi fyrir gögn um andlegar afleiðingar hennar vegna brota hans og eru miskabæturnar þess vegna hækkaðar.

Kon­an sagðist hafa sofnað al­klædd í rúmi á heim­ili Fjölnis, eft­ir að hafa verið að skemmta sér og vaknað við sárs­auka og áttað sig á því að hann væri að reyna að hafa við hana mök um endaþarm henn­ar. Önnur kona hafði einnig lagst í rúmið og bar fyr­ir dómi að sést hafi á kon­unni að mök­in væru ekki með vilja henn­ar.

Fjöln­ir bar fyr­ir dómi að sam­far­irn­ar hefðu verið með vilja kon­unn­ar og að hún hafi tekið full­an þátt í þeim. Hann hafi ekki ætlað að eiga við hana mök um endaþarm held­ur hafi hann óvart farið þangað. Kon­an hafi þá virst fá bakþanka og farið fram ásamt hinni kon­unni. Hann hafi við það sofnað. Hann var síðar vak­inn af lög­reglu og hand­tek­inn.

Fram kem­ur í niður­stöðu héraðsdóms að vitni hafi borið að Fjöln­ir hafi lagst upp í rúm hjá kon­unni þar sem hún hafi legið sof­andi. Tel­ur dóm­ur­inn framb­urði kon­unn­ar og vitn­is­ins, hinn­ar kon­unn­ar, vera trú­verðuga og þar með framb­urð Fjöln­is í ósam­ræmi við þá.

„Þrátt fyr­ir að hugs­an­legt sé að ein­hver kyn­ferðis­leg sam­skipti hafi átt sér stað milli ákærða og brotaþola fyrr um kvöldið þegar þau voru ný­kom­in heim til ákærða ber að hafa í huga að ákærði fer upp í rúm til sof­andi konu í þeim til­gangi að eiga við hana mök,“ seg­ir enn ­frem­ur í dómn­um. Ekk­ert bendi til þess að kon­an hafi veitt samþykki sitt fyr­ir því.

„Þá er ljóst af fram­an­greind­um framb­urði vitna um ástand brotaþola skömmu eft­ir at­vikið að brotaþoli hef­ur orðið fyr­ir miklu áfalli. Þegar allt framan­ritað er virt þykir ekki var­huga­vert að telja nægi­lega sannað að ákærði hafi gerst sek­ur um þá hátt­semi sem hon­um er gef­in að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsi­á­kvæða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert