Meirihlutinn á móti inngöngu í ESB

AFP

Meirihluti landsmanna myndi hafna inngöngu Íslands í Evrópusambandið ef kosið væri um í dag samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem Gallup gerði fyrir samtökin Já Ísland sem beita sér fyrir því að gengið verði í sambandið. Þannig eru 57,3% andvíg inngöngu í ESB en 42,7% því hlynnt. 

Meirihluti kjósenda Viðreisnar (92%), Samfylkingarinnar (80%) og Pírata (61%) vilja ganga í ESB samkvæmt könnuninni en meirihluti kjósenda Sjálfstæðisflokksins (85%), Miðflokksins (80%), Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs (62%) og annarra flokka (77%) er hins vegar andvígur inngöngu í sambandið.

Fleiri eru að sama skapi andvígir því að taka upp aðildarviðræður við ESB en þeir sem það vilja eða 44,5% á móti 40,1%. Meirihluti kjósenda Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata vill hefja á ný viðræður við sambandið en meirihluti kjósenda Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins, VG og annarra flokka er því andvígur.

Þá var spurt um afstöðuna til upptöku evru í stað krónunnar og sögðust 46,1% vera því hlynnt en 36,6% því andvíg. Könnunin var netkönnun og gerð dagana 13.-25. september. Úrtakið var 1.409 manns á öllu landinu, 18 ára og eldri, og var þátttökuhlutfall 54%.

Fjallað er um könnunina á fréttavefnum Eyjunni.

mbl.is