Vill sérsveit gegn launasvikum

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra. mbl.is/Valli

„Þessi þáttur var náttúrulega sláandi,“ sagði Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra í Silfrinu í Ríkisútvarpinu í dag, spurður um umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Kveiks um meint brot fyrirtækja gegn erlendum starfsmönnum þegar kemur að launagreiðslum.

Ráðherrann sagði ljóst að taka þyrfti harðar á slíkum málum og tryggja að úrræðin til þess væru til staðar. Ríkisstjórnin hefði fyrir vikið í samstarfi við verkalýðshreyfinguna verið að vinna að hugmyndum í þeim efnum að undanförnu. Spurður hvort ekki vantaði fjármagn í því að sinna nauðsynlegu eftirliti í þessum efnum sagði hann eftirlitið vera að aukast.

„En vissulega þurfum við að ræða það hvort við þurfum ekki að setja meiri kraft í þetta,“ sagði Ásmundur. Hluti af því væri að setja meira fjármagn í málaflokkinn. Hann væri hins vegar þeirrar skoðunar að það sem skipti meira máli væri að fá alla aðila málsins til þess að vinna að því í sameiningu. Viðkomandi ráðuneyti, opinberar stofnanir og lögregluna.

Þannig væru grá svæði á milli þessara aðila sem sköpuðu glufur. Til stæði að fulltrúar þessara aðila hittust á fyrsta fundi sínum í næstu viku og þá væri tilvalið að ræða hvort ekki væri hægt að fara í samþættar aðgerðir í þessum efnum. Tillaga þess efnis að stofna þennan hóp hefði verið samþykkt í ríkisstjórninni fyrir þremur vikum.

Sagði hann tækifæri í komandi kjaraviðræðum að gera það hluta af þeim að tekið yrði á þessum málum. Aðspurður sagðist Ásmundur vilja að viðurlög yrði við ítrekuðum brotum í þessum efnum. Komið hafi fram í Kveiki að um væri að ræða margítrekuð brot og meðvituð. Vildi hann koma á sérsveit sem gæti farið um og gripið inn í. Síðan þyrfti einnig úrræði fyrir einstaklinga sem færu illa út úr málum þar sem þeir væru órétti beittir.

mbl.is