Tillögu um verkbókhald vísað frá

Borgarráð Reykjavíkur fundar.
Borgarráð Reykjavíkur fundar. mbl.is/​Hari

Meirihlutaflokkarnir í borgarstjórn Reykjavíkur vísuðu frá tillögu um að taka upp þá meginreglu að nýta verkbókhald til að fylgjast með kostnaðarþróun verkefna á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara þegar málið var tekið í borgarráði sl. fimmtudag.

Sjálfstæðismenn lögðu tillöguna fram í borgarráði, en í henni segir m.a.: „Tillagan er lögð fram í ljósi þeirra fyrirspurna sem lagðar hafa verið fram um einstök verkefni á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara sem ekki var unnt að svara vegna þes að ekki hefur verið haldið verkbókhald og því ekki hægt að sýna fram á kostnað við einstök verkefni.“

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna greiddu fjögur atkvæði með því að vísa tillögunni frá gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Í bókun meirihlutans segir að verkbókhald sé þegar í notkun á ýmsum stöðum og það sé til skoðunar að taka það upp á fleiri stöðum. „Mat á þörf á því hvort skrifstofa borgarstjóra og borgarritara þurfi á verkbókhaldskerfi að halda myndi því fara fram að undangengnu mati mannauðsstjóra og yfirmanna á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara,“ segir í bókun meirihlutans.

Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna, segir að á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara starfi 55 manns og kostnaðurinn sé yfir 800 milljónir kr. á ári. „Það hefur borið á því að stjórnkerfið er ekki skilvirkt og þá er eðlilegt að við séum með verkbókhald þannig að hægt sé að fá skýrari sýn á reksturinn og meiri árangur,“ segir hann í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert