Sögð sárna neikvæð umfjöllun um Eflingu

Sólveig Anna Jónsdóttir er formaður Eflingar. Mynd úr safni.
Sólveig Anna Jónsdóttir er formaður Eflingar. Mynd úr safni. mbl.is/​Hari

Umræða fjölmiðla um starf skrifstofu Eflingar hefur á köflum verið óvönduð og æsingakennd, að því er segir í yfirlýsingu sem birt er á vef stéttarfélagsins.

Formaður og framkvæmdastjóri félagsins hafi hins vegar átt góð og hreinskiptin samtöl um málið á trúnaðarráðsfundi og félagsfundi á þriðjudagskvöld og svo á starfsmannafundi nú í morgun. Fram hefur komið að starfsfólki og félagsmönnum Eflingar sárnar sú neikvæða umfjöllun sem átt sér hefur stað um vinnustaðinn og félagið.

„Okkur þykir mjög miður að heiður og æra starfsmannahóps Eflingar í heild hafi verið dregin í efa á opinberum vettvangi. Slíkt er að ósekju. Við berum traust til starfsfólks Eflingar, sem vinnur mjög gott og vandað starf við að vernda hagsmuni verkafólks, oft undir miklu álagi,“segir í yfirlýsingunni.

Er starfsfólki þá þakkað fyrir þann „skilning og þolinmæði“ sem það hafi sýnt  „vegna breytinga og nýrra áherslna í starfi félagsins“.

mbl.is