Segja íbúa Bjargs ekki hafa gleymst

Heimilið Bjarg er til húsa á Seltjarnarnesi.
Heimilið Bjarg er til húsa á Seltjarnarnesi. mbl.is/Hari

„Mánuðum saman höfum við aðstandendur Bjargs reynt að fá embættismenn og stjórnmálamenn Seltjarnarness til að ræða við okkur um framtíð heimilisins og við höfum boðist til að aðstoða þá við að finna hagkvæma lausn á vandanum en þeir hafa skellt við því skollaeyrum undir stjórn bæjarstjórans. Þeir hafa því varla gleymt vandanum heldur kýs sveitarstjórinn að segja að hann hafi gleymst.“

Þetta segja þeir Hjörleifur og Kári Stefánssynir í yfirlýsingu sem þeir hafa sent á fjölmiðla vegna heimilisins Bjargs á Seltjarnarnesi þar sem sjö karlmenn með geðklofagreiningu búa. Ríkið segir heimilið á ábyrgð Seltjarnarnesbæjar en bæjarfélagið hefur vísað því á bug. Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarness, hefur sagt í fjölmiðlum að Bjarg hafi gleymst og sagt það verkefni ríkisins að reka heimilið.

Við yfirfærslu þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga árið 2011 var fjármagn sem áður fór í rekstur Bjargs flutt frá velferðarráðuneytinu til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, en Hjálpræðisherinn hefur rekið heimilið undanfarna áratugi. Hjörleifur, sem er formaður Félags aðstandenda vistmanna á Bjargi, og Kári bróðir hans segja að Seltjarnarnesbær undir stjórn Ásgerðar vilji ekki gangast við lögboðinni skyldu sinni og veita geðfötluðum íbúum sveitarfélasins þá þjónustu sem þeir eigi rétt á.

„Bæjarstjórinn lætur hins vegar hafa eftir sér í fréttum að íbúar Bjargs hafi gleymst í kerfinu og hneykslunartónninn leynir sér ekki og hún telur sig þess umkomna að segja að húsnæðið á Bjargi sé þeim ekki boðlegt. Það er sjálfu sér rangt að íbúar Bjargs hafi gleymst í kerfinu, en rétt er að sveitarfélagið hefur látið eins og þeir komi samfélaginu ekki við. Það er hins vegar gott að sveitarstjórinn skuli sýna því mikinn skilning að húsnæðinu sé áfátt því það vekur góðar væntingar um að sveitarfélagið finni heimilinu miklu betra húsnæði þegar fram líða stundir eða byggi yfir það fullkomið hús.“

Þá segja þeir enga ástæða til að ætla að íbúar Seltjarnarness séu upp til hópa sáttir við stefnu bæjarstjórans í málinu „og vonandi taka þeir af skarið og knýja sveitarstjórnina til að bregðast við á mannsæmandi hátt og taka við lögbundnu hlutverki sínu með bros á vör.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert